Fréttir

Ný lyf á markað 1.2.2008

1.2.2008

Cystagon hylki eru markaðsett í styrkleikanum150 mg. Þau innihalda virka efnið cysteamín sem mercaptamín bítartrat. Lyfið er ætlað til meðferðar á staðfestum cystíngeymdarkvilla með nýrnasjúkdómi. Cysteamín dregur úr uppsöfnun cystíns í sumum frumum (t.d. hvítkornum, vöðva- og lifrarfrumum) í sjúklingum með cystíngeymdarkvilla með nýrnasjúkdómi og dregur úr framvindu nýrnabilunar þegar meðferð er hafin snemma. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í efnaskiptasjúkdómum og eingöngu má nota það á eða í tengslum við sjúkrastofnun.

Grazax 75.000 SQ-T, frostþurrkað lyf til inntöku er ætlað til meðferðar á nefslímubólgu og tárubólgu af völdum grasfrjókorna hjá fullorðnum sjúklingum með klínísk einkenni sem hafa verið sjúkdómsgreindir með jákvæðu húðprófi og/eða sértæku IgE prófi fyrir grasfrjókornum. Lyfið inniheldur grasafrjókornaofnæmisvaka og markmið meðferðarinnar er að valda ónæmissvari við þeim og minnka þannig ofnæmiseinkenni. Taflan er látin leysast upp undir tungu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í ofnæmis- og ónæmislækningum.

Invega forðatöflur eru markaðssettar í þremur styrkleikum; 3 mg, 6 mg og 9 mg. Lyfið er ætlað til meðferðar við geðklofa. Virka efnið er paliperidon sem er sértækur hemill á verkun mónóamína og verkunarháttur þess er frábrugðinn verkunar­hætti hefðbundinna geðrofslyfja. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Orencia er stofn fyrir innrennslisþykkni, 250 mg í hettuglasi. Virka efnið er abatacept sem er sérhæft lyf til ónæmisbælingar. Lyfið er, ásamt metótrexati, ætlað til meðferðar við í meðallagi alvarlegri til alvarlegri, virkri iktsýki hjá fullorðnum sjúklingum sem ekki hafa svarað nægilega eða haft óþol fyrir öðrum sjúkdómstemprandi gigtarlyfjum þar á meðal a.m.k. einum TNF (tumour necrosis factor) hemli. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í gigtarsjúkdómum og eingöngu má nota það á eða í tengslum við sjúkrastofnun.

Vistabel stungulyfsstofn, 4 Allergan ein./0,1 ml. Vistabel er ætlað til að draga tímabundið úr í meðallagi miklum eða mjög miklum lóðréttum hrukkum milli augabrúna, sem koma fram þegar hleypt er í brýrnar, hjá fullorðnum < 65 ára, þegar hrukkurnar hafa umtalsverð sálræn áhrif á sjúklinginn. Virka efnið er bótúlínuseitur af flokki A (Clostridium botulinum taugaeitur) og tilheyrir flokki vöðvaslakandi lyfja sem hafa útlæg áhrif. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í húðsjúkdómum og lýtalækningum.

Til baka Senda grein