Fréttir

Aukaverkanir af völdum Omniscan skuggaefnis við myndatöku með segulómun

22.2.2008

Danska lyfjastofnunin fjallar á heimasíðu sinni um mögulega alvarlega aukaverkun af sérlyfinu Omniscan, sem er skuggaefni notað við myndatöku með segulómun. Þessi aukaverkun er nefnd almenn nýrnatengd bandvefsaukning (nephrogenic systemic fibrosis, NSF) og lýsir sér oftast sem aukin bandvefsmyndun í húð, þannig að húðin verður hrjúf og hörð, en getur einnig náð til annarra líffæra. Omniscan hefur verið á markaði í tæp 20 ár og verið notað við skoðun um 30 milljóna sjúklinga.

Einungis hefur orðið vart við þessa mögulegu aukaverkun hjá sjúklingum með alvarlega skerta nýrnastarfsemi. Í Danmörku er lyfið notað hjá u.þ.b. 17.500 sjúklingum á ári. Um 400 sjúklingar með alvarlega skerta nýrnastarfsemi hafa fengið lyfið frá árinu 2002 í Danmörku og af þeim hafa 20 greinst með ofangreind einkenni í húð.

Sjá nánar: http://www.laegemiddelstyrelsen.dk/1024/visLSArtikel.asp?artikelID=13111&newsletter=netnyt

Í samantekt um eiginleika lyfsins Omniscan sem finna má á heimasíðu Lyfjastofnunar kemur m.a. fram að ekki skuli nota lyfið hjá sjúklingum með verulega skerta nýrnastarfsemi.Til baka Senda grein