Fréttir

Ný lyf á markað 1.3.2008

29.2.2008

Avaglim filmuhúðaðar töflur innihalda virku efnin rósíglítazón og glímepíríð. Virku efnin eru sykursýkilyf sem hafa mismunandi verkunarhátt og bæta þannig hvort annað upp. Lyfið er ætlað til meðferðar á sykursýki af gerð 2, fyrir þá sjúklinga sem ekki ná fullnægjandi stjórn á blóðsykri með ákjósanlegum skammti af súlfónýlúrealyfi eingöngu, og geta ekki notað metformín vegna frábendingar eða óþols. Lyfið er markaðssett í tveimur styrkleikum, annars vegar 4 mg af rósiglítazóni og 4 mg af glímepíríði og hins vegar 8 mg af rósiglítazóni og 4 mg af glímepíríði. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Ecalta 100 mg/hettuglas, innrennslisstofn og leysir fyrir innrennslisþykkni inniheldur virka efnið anidulafungin sem er sveppalyf. Það er ætlað til meðferðar á ífarandi hvítsveppasýkingu hjá fullorðnum sjúklingum sem ekki eru með daufkyrningafæð. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í smitsjúkdómum og það er eingöngu ætlað til notkunar á eða í tengslum við sjúkrastofnun.

 

Mircera stungulyf í áfylltum sprautum inniheldur virka efnið metoxýpólýetýlen glýkól-epóetín beta. Það er notað til meðferðar við blóðleysi í tengslum við langvinnan nýrnasjúkdóm (CKD, chronic kidney disease). Lyfið er markaðssett í 6 styrkleikum, þ.e. 50 míkróg/sprautu, 75 míkróg/sprautu, 100 míkróg/sprautu, 150 míkróg/sprautu, 200 míkróg/sprautu og 250 míkróg/sprautu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í nýrnasjúkdómum og það er eingöngu ætlað til notkunar á eða í tengslum við sjúkrastofnun.

 

Yondelis stofn fyrir innrennslisþykkni, 0,25 mg/hettuglas og 1 mg/hettuglas inniheldur virka efnið trabectedín og er ætlað til meðferðar sjúklinga með langt gengið sarkmein í mjúkvef, eftir að meðferð með antracýklínum og ífosfamíði hefur brugðist eða þegar meðferð með þeim lyfjum hentar ekki sjúklingnum. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum og eingöngu má nota það á eða í tengslum við sjúkrastofnun.

 

Nýtt lyfjaform

Betolvex 1 mg töflur eru nú markaðssettar en fyrir er á markaði Betolvex stungulyf 1 mg/ml. Töflurnar innihalda cyanocobolamin sem er B12 vítamín. Þær eru ætlaðar til viðhaldsmeðferðar á anaemia perniciosa. Töflurnar voru áður á undanþágulista Lyfjastofnunar. Lyfið er lyfseðilsskylt.

 

Nýr styrkleiki

Micardis töflur eru nú markaðssettar í styrkleikanum 20 mg en fyrir á markaði eru 40 mg og 80 mg töflur. Lyfið er notað til meðferðar við háþrýstingi og inniheldur virka efnið telmisartan sem er angíótensín II blokki. Venjulegur skammtur er 40 mg einu sinni á dag en hjá sumum sjúklingum getur 20 mg skammtur þó nægt.

 

Breytt heiti lyfs

Dýralyfið Fucidin Comp vet eyrnadropar fyrir hunda hafa breytt um heiti og heita nú Canaural.

Til baka Senda grein