Fréttir

Innköllun á Pinex Junior 250 mg endaþarmsstílum vegna prentvillu í leiðbeiningum um skammta á umbúðum

16.10.2008

Lyfjastofnun hefur farið fram á innköllun á Pinex Junior 250 mg endaþarmsstílum fyrir börn. Ástæða innköllunarinnar er prentvilla í leiðbeiningum um skömmtun á límmiða á umbúðum lyfsins. Of stórir skammtar geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Pinex Junior endaþarmsstílar innihalda parasetamól. Þeir eru hitalækkandi og verkjastillandi lyf ætlað börnum og fást í lyfjabúðum án lyfseðils.

Þeim, sem hafa Pinex Junior 250 mg endaþarmsstíla í fórum sínum, er bent á að skila þeim í næstu lyfjabúð.

Tekið skal fram að ekkert er athugavert við lyfið sjálft, heldur einungis hluta notkunarleiðbeininga (ráðlagða skammta) á límmiða á þessum eina styrkleika. Leiðbeiningar á íslenskum fylgiseðli inni í pakkanum eru réttar.

Ekki er hætta á alvarlegum aukaverkunum nema um endurtekna skammta sé að ræða hjá litlum börnum. Hafi til dæmis barn sem er 10-12 kg fengið sex eða fleiri 250 mg stíla á einum sólarhring er rétt að leita ráða hjá lækni eða lyfjafræðingi.

Umræddur styrkleiki lyfsins með röngum leiðbeiningum hefur nú þegar verið fjarlægður úr lyfjabúðum. Lyfið verður fáanlegt aftur með réttum leiðbeiningum innan skamms.

Nánari upplýsingar eru veittar hjá Lyfjastofnun í síma 520 2100 eða á lyfjastofnun@lyfjastofnun.isTil baka Senda grein