Fréttir

Ný lyf á markað 1. nóvember 2008

3.11.2008

Eucreas filmuhúðaðar töflur, 50/850 mg og 50/1000 mg. Lyfið er ætlað til meðferðar við sykursýki 2. Það inniheldur tvö virk efni, vildagliptín og metformín. Bæði þessi efni hjálpa til við að hafa stjórn á sykurmagni í blóði. Vildagliptin verkar á brisið til aukningar insúlíns og minnkunar glúkagons. Metformin eykur nýtingu líkamans á insúlíninu. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Mencevax ACWY stungulyfsstofn og leysir. Bóluefni sem inniheldur einangraða hluta bakteríunnar Neisseria meningitidis (sermisgerðir A, C, W135 og Y). Þessi baktería er mjög smitandi og getur valdið alvarlegum og stundum lífshættulegum sýkingum svo sem heilahimnubólgu eða blóðeitrun. Mencevax ACWY er notað við bólusetningar ferðamanna og var áður flutt inn gegn undanþágu. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Paroxetin Ranbaxy filmuhúðaðar töflur innihalda paroxetín 20 mg. Það er í flokki lyfja sem kallast sérhæfðir serótónínendurupptökuhemlar og eru þunglyndislyf. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Pneumovax stungulyf, lausn er pneumococca bóluefni. Pneumococcar geta valdið sýkingum í lungum og blóði og heilahimnubólgu. Í bóluefninu eru 23 sermisgerðir pneumococca. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Remodulin innrennslislyf, lausn inniheldur treprostiníl natríum, 1 mg/ml, 2,5 mg/ml, 5 mg/ml eða 10 mg/ml. Það er ætlað til meðferðar við lungnaháþrýstingi af óþekktri orsök. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í meðferð lungnaháþrýstings og eingöngu má nota það á eða í tengslum við sjúkrastofnun.

Toviaz forðatöflur. Töflurnar innihalda 4 mg eða 8 mg fesóteródín og er s.k. andmúskarínlyf. Það er ætlað til meðferðar við einkennum ofvirkrar þvagblöðru. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Tyverb filmuhúðaðar töflur innihalda lapatínib, 250 mg. Lyfið, ásamt capecitabíni (Xeloda), er ætlað til meðferðar á langt gengnu brjóstakrabbameini eða brjóstakrabbameini með meinvörpum þar sem æxlin yfirtjá ErbB2 (HER2). Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum og eingöngu má nota það á eða í tengslum við sjúkrastofnun.

Nýtt lyfjaform

Hycamtin hylki, hörð innihalda tópótekan 0,25 mg eða 1 mg. Lyfið er ætlað til einlyfja meðferðar hjá fullorðnum sjúklingum með smáfrumukrabbamein í lungum sem hefur tekið sig upp að nýju þegar ekki er talið henta að endurtaka upphafsmeðferð. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum og þvagfæraskurðlækningum og eingöngu má nota það á eða í tengslum við sjúkrastofnun. Fyrir á markaði er innrennslisþykkni.

Ný samhliða innflutt lyf

Cipramil (D.A.C.) töflur, 20 mg.

Diovan Comp (D.A.C.) filmuhúðaðar töflur, 160/12,5 mg.

Emla (D.A.C.) krem, 5%.

Selo-Zok (D.A.C.) forðatöflur, 47,5 mg.

 

Listi yfir lyf markaðssett 2008 er hér.Til baka Senda grein