Fréttir

Rasilez - Ný frábending og viðvörun í lyfjatexta

20.2.2009

Lyfjastofnun Evrópu (EMEA) hefur birt fréttatilkynningu um að lagt sé til að nýrri frábendingu og viðvörun verði bætt í samantekt um eiginleika lyfja sem innihalda aliskiren.

Stofnunin leggur til að í texta lyfjanna verði frábending um að ekki skuli nota lyf sem innihalda aliskiren hjá sjúklingum sem hafa fengið ofsabjúg (angioedema).

Stofnunin mælir einnig með að sérstök varnaðarorð verði sett í lyfjatexta um að meðferð hjá sjúklingum sem sýni einkenni ofsabjúgs skuli hætt og að þeir skuli leita til læknis. Ofsabjúgur einkennist af þrota í húð, vefjum undir húð og slímhúð s.s. í munni og hálsi. Ofsabjúgur getur aukist hratt en er sjaldan lífshættulegur nema þegar bjúgmyndun í hálsi teppir öndunarveg.

Skýrt hefur verið frá einkennum sem þessum í tengslum við notkun lyfja sem innihalda aliskiren. Sérfræðinganefnd EMEA um lyf fyrir menn (CHMP) hefur yfirfarið öll tiltæk gögn um aliskiren og komist að þeirri niðurstöðu að kostir lyfsins vegi áfram þyngra en áhættan en ofsabjúgur geti verið sjaldgæf en hættuleg aukaverkun.

Lyfið er notað við háþrýstingi af óþekktri orsök.

Hér á landi er eitt lyf sem inniheldur aliskiren, Rasilez, sem fékk markaðsleyfi í september 2007 og kom á markað í ársbyrjum 2008. Ávísað var um 26.000 dagskömmtum á árinu 2008.

Sjá fréttatilkynningu EMEATil baka Senda grein