Fréttir

Fleiri viðvaranir við Fortodol

23.3.2009

Breska lyfjastofnunin hefur á heimasíðu sinni varað við Fortodol, fæðubótarefni sem sagt er vera veikt verkjalyf og hefur verið til sölu í netverslunum. Lyfjastofnun og Matvælastofnun hafa þegar varað við þessari vöru.

Breska matvælastofnunin The Food Standard Agency sendi frá sér tilkynningu þar sem varað er við fæðubótarefninu Fortodol, einnig þekkt undir nafninu Miradin og inniheldur lyfjaefnið nimesulide. Breska lyfjastofnunin MHRA tekur nú í sama streng.

Nimesulide er mjög virkt bólgueyðandi lyf sem getur valdið alvarlegum lifrarskemmdum.

Sænska lyfjastofnunin er nú að rannsaka 11 tilfelli um lifrarskemmdir sem grunur leikur á að tengist þessari vöru. Önnur 5 tilvik hafa verið tilkynnt í Noregi þar af eitt dauðsfall.

Lyfjastofnun varar fólk við kaupum á lyfjum og fæðubótarefnum í netverslunum. Samkvæmt íslenskum lögum er netverslun með lyf óheimil enda án eftirlits heilbrigðisyfirvalda. Sala fæðubótarefna í netverslunum er iðulega leið fyrir ólöglega og skaðlega vöru í hendur neytenda.Til baka Senda grein