Fréttir

Aukið vinnuálag hjá Lyfjastofnun

27.3.2009

Nú er svo komið að fjölgun og aukið umfang verkefna hefur þau áhrif á starfsemi Lyfjastofnunar að stofnunin mun þurfa að nýta sér setta tímafresti í mun meira mæli en verið hefur. Að óbreyttu er fyrirséð að þeim verkefnum mun fjölga sem ekki næst að vinna innan tilskilinna tímamarka.

Á síðasta ári voru afgreiddar um 450 umsóknir um markaðsleyfi og samhliða innflutningsleyfi fyrir lyf og hafa þær aldrei verið fleiri. Nú bíða yfir 900 umsóknir um markaðsleyfi/samhliða innflutningsleyfi og yfir 600 tegundabreytingar afgreiðslu á skráningarsviði fyrir utan önnur verkefni. Á eftirlitssviði eru yfir 600 mál í vinnslu auk annarra verkefna.

Viðskiptavinum er bent á að senda Lyfjastofnun erindi sín tímanlega, að því gefnu að öll tilskilin gögn fylgi, og gera ráð fyrir að settur tímafrestur verði nýttur. Ekki verður hægt að útiloka að í einhverjum tilvikum náist ekki að afgreiða erindi innan tímamarka. Þetta á bæði við um verkefni sem starfsfólk skráningarsviðs og starfsfólk eftirlitssviðs sinnir.

Þá er bent á að umfjöllun umsókna/verkefna hefst ekki fyrr en öll tilskilin gögn liggja fyrir og enn og aftur skal áréttað mikilvægi þess að frágangur og gæði umsóknargagna (þ.m.t. þýðingar á lyfjatextum) séu sem skyldi.

Eins og áður munu starfsmenn stofnunarinnar leitast við að ljúka verkefnum eins fljótt og kostur er og er því mikilvægt að öll erindi séu vel undirbúin.Til baka Senda grein