Fréttir

Undirbúningur vegna svínainflúensu gengur samkvæmt áætlun

Hér á landi hefur vinna hafist samkvæmt hættustigi almannavarna

29.4.2009

Hér á landi hefur vinna hafist samkvæmt hættustigi almannavarna og markmiðið er að halda nýjum inflúensustofni innan afmarkaðs svæðis, seinka útbreiðslu og vinna þannig tíma til að bregðast við faraldri.

Engin bólusetningarlyf eru til við þessum stofni og geta liðið nokkrir mánuðir áður en bólusetningarlyf verða tilbúin. Í landinu eru til inflúensulyf fyrir um þriðjung þjóðarinnar sem talin eru virk gegn þessum stofni svínainflúensu.

Embætti sóttvarnarlæknis telur ekki ástæðu til að setja takmarkanir við ferðalög til útlanda á meðan ekki liggja fyrir nákvæmari upplýsingar um svínainflúensufaraldurinn í Mexíkó. Mælst er þó til þess að fólk ferðist ekki til Mexíkó nema brýna nauðsyn beri til.

Enginn einstaklingur hefur greinst hér á landi með svínainflúensu. Þeir sem fá inflúensulík einkenni (skyndilegan hita, hósta, beinverki) innan viku eftir heimkomu frá Mexíkó eða öðrum svæðum, þar sem svínainflúensa hefur greinst, er bent á að leita læknisaðstoðar hið fyrsta.Til baka Senda grein