Fréttir

Rangt að Lyfjastofnun hafi veitt leyfi fyrir Hydroxycut

4.5.2009

Haft er eftir framkvæmdastjóra Fitnesssport á Íslandi á visir.is að fitubrennsluefnið Hydroxycut sem selt er á Íslandi hafi fengið samþykki Lyfjastofnunar.

Hlutverk Lyfjastofnunar er að meta hvort tilgreind innihaldsefni á umbúðum séu lyfjavirk. Yfirvöld hafa engar aðrar upplýsingar um innihald í fæðubótarefnum en áletrun á umbúðum. Engar rannsóknir eða staðfesting á innihaldi fæðubótarefna liggja fyrir hjá yfirvöldum ólíkt því sem gerist með lyf.

Hydroxycut er markaðssett sem fæðubótarefni og Lyfjastofnun hefur sannreynt að ekkert af þeim efnum sem tilgreind eru á umbúðum þess eru lyf samkvæmt íslenskri skilgreiningu. Hydroxycut fellur því ekki undir eftirlitshlutverk Lyfjastofnunar.

Á vef matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna, FDA, er varað við notkun Hydroxycut þar sem stofnuninni hafi borist 23 tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir af ýmsu tagi sem tengjast notkun Hydroxycut og þar af eitt dauðsfall.

Á vef FDA er listi yfir 14 mismunandi vörur undir heitinu Hydroxycut sem hafa verið innkallaðar í Bandaríkjunum. Þó svo að aukaverkanirnar séu ekki tengdar öllum þessum vörum hefur framleiðandinn fallist á að innkalla allar vörutegundirnar á listanum.

Sjá viðvörun FDATil baka Senda grein