Fréttir

Ný lyf á markað 1. júní 2009

3.6.2009

Ný lyf

Adrenalin Mylan stungulyf, lausn 1 mg/ml. Adrenalín, einnig nefnt epinefrín, er s.k. katekólamín og örvar ósjálfráða taugakerfið. Ábendingar eru astmi, hjartastopp og ofnæmisviðbrögð. Lyfið er lyfseðilsskylt. Það var áður á s.k. undanþágulista.

Alendronat Actavis töflur 70 mg. Virka efnið er alendrónsýra. Alendrónsýra er notuð til að meðhöndla beinþynningu hjá konum eftir tíðahvörf. Hún dregur úr hættu á hryggjarliða- og mjaðmargrindarbrotum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Allopurinol töflur 100 mg. Allopurinol er notað við þvagsýrugigt og öðrum sjúkdómum sem tengjast of mikilli þvagsýru í líkamanum, t.d. nýrnasjúkdómi, efnaskiptasjúkdómum, ákveðnum húðsjúkdómum eða krabbameini. Lyfið er lyfseðilsskylt. Það var á undanþágulista undir heitinu Hexanurat.

Atropin Mylan stungulyf, lausn 0,5 mg/ml. Ábendingar eru krampar í meltingarvegi, ofseyting munnvatns, berkjuseytis og/eða magasafa, hægsláttur, undirbúningsmeðferð fyrir aðgerðir. Lyfið er lyfseðilsskylt. Atropin stungulyf, lausn 1 mg/ml var áður á undanþágulista.

Ciprofloxacin Portfarma filmuhúðaðar töflur 250 mg og 500 mg. Cíprófloxacín er sýklalyf í flokki flúórókínólóna. Það er lyfseðilsskylt.

Dolovet vet duft til inntöku 2,4 g. Lyfið inniheldur ketóprófen sem er bólgueyðandi og hitalækkandi (NSAID). Lyfið er ætlað fullorðnum nautgripum.

Efedrin Mylan stungulyf, lausn 50 mg/ml. Efedrín er náttúrulegur alkalóíði. Það dregur úr þrota í slímhúðum og víkkar berkjur með örvun adrenvirkra alfa- og betaviðtaka. Ábendingar eru astmi og lyfjaforgjöf við mænudeyfingu. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Rasilez HCT filmuhúðaðar töflur 150 mg/12,5 mg, 150 mg/25 mg, 300 mg/12,5 mg og 300 mg/25 mg. Í töflunum eru tvö virk innihaldsefni, aliskiren og hýdróklórtíazíð. Aliskiren tilheyrir nýjum lyfjaflokki sem kallast renínhemlar. Hýdróklórtíazíð er þvagræsilyf af flokki tíazíða. Bæði efnin lækka blóðþrýsting. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Simvastatin Actavis filmuhúðaðar töflur 10 mg, 20 mg og 40 mg. Simvastatín tilheyrir flokki lyfja sem kallast statín. Þau draga úr magni kólesteróls og ákveðinna fituefna (þríglýseríða) í blóði. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Stelara stungulyf, lausn 45 mg. Lyfið inniheldur virka efnið ustekinumab, sem er einstofna mótefni. Það bælir ónæmiskerfið og er notað til meðferðar við s.k. skellu psoriasis (plaque psoriasis) hjá sjúklingum sem geta ekki notað eða svara ekki meðferð með öðrum lyfjum eða ljósameðferð. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í húðsjúkdómum og er notkun þess bundin við sjúkrastofnanir.

Listi yfir lyf markaðssett 2009 er hér.

Til baka Senda grein