Fréttir

Lyfjastofnun Evrópu samþykkir notkun inflúensulyfja fyrir börn og lengir fyrningartíma þeirra

16.6.2009

Vísindanefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn (CHMP) hefur fallist á að inflúensulyfin Tamiflu og Relenza megi gefa börnum innan eins árs við inflúensu faraldri af stofni A/H1N1. Einnig hefur nefndin samþykkt að þungaðar konur og konur með börn á brjósti geti notað lyfin. Þar að auki hefur verið samþykkt að lengja fyrningartíma lyfjanna.

Ráðlagður skammtur af Tamiflu fyrir börn undir eins árs aldri er 2-3 mg fyrir hvert kg líkamsþunga tvisvar á dag. Þessi skammtur er grundvallaður á takmörkuðum klínískum upplýsingum. Enn takmarkaðri upplýsingar liggja fyrir um áhrif lyfsins á börn undir þriggja mánaða aldri en ráðlagt er að þau fái 2 mg fyrir hvert kg líkamsþunga. Skammtastærðir verða endurskoðaðar þegar meiri upplýsingar liggja fyrir. Um fyrirbyggjandi skammta þarf að meta áhættu í hverju tilfelli.

Vísindanefndin leggur til að fyrningartími fyrir Tamiflu og Relenza verði lengdur um tvö ár, úr fimm árum í sjö. Þeir sem eiga í fórum sínum þessi lyf mega bæta tveimur árum við uppgefinn fyrningartíma á umbúðum.Til baka Senda grein