Fréttir

Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið varar við elektrónískum sígarettum

31.7.2009

Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) hefur rannsakað svokallaðar elektrónískar sígarettur. Í ljós kom að þær innihéldu, auk nikótíns, ýmis skaðleg og jafnvel krabbameinsvaldandi efni. Þar á meðal voru ýmis nítrósamínsambönd og  díetýlen glýkól.

FDA hefur ekki viðurkennt elektrónískar sígarettur og engar rannsóknir hafa verið gerðar á virkni þeirra eða gæðum framleiðslunnar. Varar FDA því eindregið við vörunni.

Elektrónískar sígarettur eru knúnar með rafhlöðum. Í þeim eru hylki með nikótíni ásamt öðrum efnum. Meðal innihaldsefna elektrónískra sígaretta eru ýmis bragðefni, s.s. súkkulaði- og myntubragðefni og hafa sérfræðingar lýst áhyggjum sínum af því að vörur sem þessar geti ýtt undir nikótínnotkun og –fíkn meðal ungs fólks.

Yfirleitt fylgja engar upplýsingar með vörunni um skaðsemi nikótíns, aukaverkanir eða frábendingar við notkun elektrónískra sígaretta líkt og fylgja með viðurkenndum nikótínlyfjum.

Lyfjastofnun hefur flokkað elektrónískar sígarettur sem innihalda nikótín sem lyf hér á landi sbr. 5. gr. lyfjalaga nr. 93/1994. Innflutningur og dreifing slíkra vara hér á landi er því brot á lyfjalögum.

Fréttatilkynning FDA

Til baka Senda grein