Fréttir

Almenn bólusetning gegn inflúensu A(H1N1) hefst mánudaginn 23. nóvember.

Ætla má að um 50.000 Íslendingar hafi veikst nú þegar af inflúensu í yfirstandandi faraldri.

12.11.2009

Alls hefur verið dreift um 50.000 skömmtum af bóluefni við inflúensu A(H1N1) og hafa þeir að mestu verið notaðir. Fram að þessu hafa eingöngu sjúklingar með undirliggjandi sjúkdóma og aðrir forgangshópar verið bólusettir. Almenn bólusetning við inflúensu A(H1N1) hefst 23. nóvember.

Sjö tilkynningar um aukaverkanir hafa borist sem gætu verið af völdum bóluefnisins Pandemrix. Ein þeirra er talin alvarleg.

Í Svíþjóð hefur 1,4 milljón manna verið bólusett. Þar hafa um 200 tilkynningar borist um aukaverkanir frá heilbrigðisstarfsmönnum, af þeim eru 20 alvarlegar. Í Danmörku hefur 360 þúsund skömmtum verið dreift en ekki er vitað með vissu hversu margir hafa verið bólusettir. Tilkynningar um aukaverkanir þar eru 34 en engin þeirra telst alvarleg. Í Noregi hafa 25 tilkynningar borist, þar af teljast 12 alvarlegar.

Lyfjastofnun hvetur fólk, jafnt heilbrigðisstarfsmenn sem almenning, til að tilkynna til Lyfjastofnunar ef grunur leikur á aukaverkun af völdum bóluefnis við inflúensu eða veirulyfja. Hægt er að tilkynna aukaverkun á vef Lyfjastofnunar eða snúa sér til næstu lyfjabúðar eða heilsugæslu.Til baka Senda grein