Fréttir

Ábyrg sýklalyfjanotkun - vitundarvakning í Evrópu

Starfandi er sérstök ráðgefandi nefnd um notkun sýklalyfja og ónæmi sýkla.

18.11.2009

VitundarvakningÍ dag, 18. nóvember 2009, verður haldin vitundarvakning í Evrópu um þá hættu sem mönnum stafar af sýklalyfjaónæmum sýklum og hvatt til ábyrgrar notkunar sýklalyfja. Dagur þessi er haldinn í skugga heimsfaraldurs inflúensu sem geisar um þessar mundir. Þótt inflúensufaraldurinn sé áberandi er rétt að hafa hugfast að annar dulinn faraldur hefur gengið um veröldina á undanförnum árum, en það er vaxandi tíðni bakteríusýkinga af völdum sýkla sem ónæmir eru fyrir sýklalyfjum.

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og aðrar stofnanir sem málið varða telja að sýklalyfjaónæmi sé vaxandi í Evrópu og það sé ein helsta heilsuvá Evrópubúa. Ein skýring á útbreiðslu ónæmisins er mikil notkun sýklalyfja. Þótt notkun sýklalyfja tengist útbreiðslu ónæmis er enn margt á huldu um ástæður útbreiðslunnar. Mikilvægt er að koma þekkingu til skila með réttum skilaboðum og viðbrögðum. Enn skortir á þekkinguna og því mikilvægt að forðast hleypidóma.

Sýklalyf gegna mikilvægu hlutverki í meðhöndlun alvarlegra sýkinga. Því er mikilvægt að þau séu notuð á ábyrgan hátt og á réttum forsendum. Enginn dregur í efa gildi þeirra þegar það á við. Inflúensufaraldurinn sem nú geisar er af völdum veiru sem leitt getur til alvarlegra bakteríusýkinga. Með því að hefta útbreiðslu inflúensunnar, m.a. með notkun veirulyfja (Tamiflu og Relenza) og bólusetningu, er jafnframt stuðlað að minni notkun sýklalyfja.

Aðgerðartengdar sýkingar í heilbrigðisþjónustunni eru sérstakt vandamál sem tengjast sjúkrahúsum, heilsugæslu og læknastofum. Ef slíkar sýkingar eru af völdum fjölónæmra sýkla eykur það enn á vandann og ógnar heilsu sjúklinga, með auknum kostnaði vegna dýrra sýklalyfja og lengri dvalartíma á sjúkrastofnunum.

Hvað er gert til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra sýkla?

Hvatt er til þess að sýklalyf séu notuð með ábyrgum hætti. Lögð er áhersla á sýkingavarnir á heilbrigðisstofnunum og fylgst er með tíðni sýkinga sem tengjast heilbrigðisþjónustunni. Einnig er fylgst með notkun sýklalyfja innan stofnana og utan í því skyni að greina þróunina og hvernig hún getur tengst myndun sýklalyfjaónæmis. Upplýsingar um notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmi geta gagnast læknum sem ávísa þessum lyfjum. Unnt er að bólusetja gegn mörgum bakteríu- og veirusýkingum sem leiðir til fækkunar sjúkdómstilvika og minnkandi notkunar sýklalyfja.

Nefnd um notkun sýklalyfja og ónæmi sýkla

Starfandi er sérstök ráðgefandi nefnd um notkun sýklalyfja og ónæmi sýkla. Nefndin hefur kannað gögn um notkun sýklalyfja hér á landi á árunum 2007–2008 og gögn um notkun lyfjanna fyrstu sex mánuði ársins. Tölur um ávísanir sýklalyfja benda einnig til að umtalsvert hafi dregið úr notkun sýklalyfja fyrstu níu mánuði ársins 2009. Einnig hefur nefndin yfirfarið upplýsingar frá sýklafræðideild Landspítala um sýklalyfjaónæmi.

Niðurstöður nefndarinnar eru:

  1. Azítrómýcin er hlutfallslega mjög mikið notað í aldurshópnum 0–4 ára hér á landi. Algengustu ástæður fyrir notkun sýklalyfja á þessum aldri eru miðeyrnabólgur. Þar sem azítrómýcin er lengi að skiljast út úr líkamanum er það líklegt til að auka útbreiðslu ónæmra sýkla (sérstaklega pneumókokka sem eru helsta orsök miðeyrnabólgu). Azítrómýcin er ekki heppilegt lyf til meðferðar á eyrnabólgum. Fjöldi einstaklinga sem fær ávísað azítrómýcini hefur dregist saman á fyrstu 9 mánuðum ársins 2009 miðað við árið áður um 26%.
  2. Tetracýclín (hér á landi doxýcýklín) eru notuð í miklu magni í aldurshópnum 15–19 ára, meira en í nokkru öðru viðmiðunarlandi. Í þessum aldurshópi eru þau einkum notuð til að vinna bug á svokölluðum unglingabólum. Ónæmi fyrir tetracýclíni fer vaxandi á Íslandi. Mikil notkun tetracýclína hér á landi skýrir ein og sér hvers vegna heildarsýklalyfjanotkun er há á Íslandi miðað við mörg önnur lönd og þarf að draga úr henni. Þeim sem fá ávísað doxýcýklíni hefur fækkað um 3% á fyrstu 9 mánuðum ársins 2009 miðað við árið áður.
  3. Notkun kínólóna (einkum cíprófloxacíns) hefur aukist mikið á Íslandi á undanförnum árum. Samfara því hefur ónæmi E. coli sýkla, sem eru helsta orsök þvagfærasýkinga, aukist jafnt og þétt. Mikilvægt er að viðhalda virkni kínólóna með því að draga úr notkun þeirra og nota oftar sýklalyf sem eru ekki eins breiðvirk. Einstaklingum sem fá lyfseðil fyrir cíprófloxacíni hefur fækkað á fyrstu 9 mánuðum ársins 2009 miðað við árið áður sem nemur 3%.

Aðgerðir sem nefndin leggur til:

  1. Læknum verði kynntar meginniðurstöður nefndarinnar með skipulögðum fundarhöldum og umræðum. Leitað verði úrræða til að draga úr notkun sýklalyfja, einkum tiltekinna sýklalyfja þar sem við á.
  2. Fylgst verði með árangri samráðs um sýklalyfjanotkun með því að kanna gagnagrunna um notkun lyfjanna og ónæmis gegn þeim.
  3. Nefndin hvetur stjórnvöld til að hefja bólusetningu gegn pneumókokkasýkingum í ungbarnabólusetningunni. Ávinningurinn er þríþættur. Minni sjúkdómsbyrði vegna alvarlegra pneumókokkasýkinga og miðeyrnabólgna og þar með minni notkun sýklalyfja og minna sýklalyfjaónæmi hjá pneumókokkabakteríum.


Til baka Senda grein