Fréttir

Alþjóðleg herferð gegn lyfjafölsun og sölu á ólöglegum lyfjum á netinu

Vefsvæðum, sem stunda dreifingu falsaðra lyfja, fjölgar stöðugt.

20.11.2009

Lyfjastofnanir, lögregla og neytendasamtök víða um heim vinna náið saman að alþjóðlegri herferð gegn ólöglegri lyfjasölu á netinu.

Að herferðinni standa m.a. Alþjóðalögreglan (INTERPOL), Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) og samtök gegn lyfjafölsunum (International Medical Products Anti-Counterfeiting Taskforce-IMPACT).

Herferðin gengur undir nafninu „Operation Pangea II“ og nær til 24 landa. Lyfjastofnanir, lögregla og neytendasamtök þessara landa vinna náið saman að herferðinni sem aðallega er beint að þremur meginþáttum, vefsíðum, greiðsluþjónustu og dreifingarþjónustu.

Í herferðinni hafa meira en 16.000 lyfjapakkningar verið skoðaðar og nærri 200.000 ólöglegir og falsaðir lyfjaskammtar verið gerðir upptækir. Yfir 750 vefsíður hafa orðið uppvísar að ólöglegri starfsemi, 70 þeirra hefur verið lokað auk þess sem ábyrgðarmenn hafa verið handteknir og lagt hefur verið hald á lyf að andvirði 300 þúsund punda.Til baka Senda grein