Fréttir

Lyfjastofnun Evrópu rýnir gögn um megrunarlyf sem innihalda síbútramín

Ný gögn gefa til kynna að langtíma notkun á lyfjum sem innihalda síbútramín geti aukið hættu á alvarlegum hjarta- og æðasjúkdómum.

22.12.2009

Lyf sem innihalda síbútramín (Reductil) eru notuð við meðferð á offitu hjá sjúklingum sem hafa aðra undirliggjandi sjúkdóma s.s. sykursýki-II eða of háa blóðfitu.

Í fréttatilkynningu frá Lyfjastofnun Evrópu (EMA) er vísað til svokallaðrar SCOUT-rannsóknar sem fólst í að rannsaka hvort langtímameðferð með síbútramíni auki líkur á hjarta- og æðasjúkdómum hjá sjúklingum í þekktum áhættuhópi. Rannsóknin náði til 10 þúsund sjúklinga á sex ára tímabili. Niðurstaða rannsóknarinnar gefur til kynna að hætta á alvarlegum hjarta- og æðasjúkdómum kunni að tengjast notkun lyfsins.

Af ofangreindum ástæðum telur sérfræðinganefnd stofnunarinnar um lyf fyrir menn (CHMP) rétt að skoða niðurstöðurnar betur og hvetur lækna og sjúklinga til að gæta fyllstu varúðar við notkun lyfsins og fara eftir skráðum ábendingum. Sérstaklega á þetta við um sjúklinga með sögu um kransæðasjúkdóm, hjartabilun, hraðslátt, teppusjúkdóm í útlægum slagæðum, sláttarglöp eða heilaæðasjúkdóm (heilablóðfall eða skammvinnt blóðþurrðarkast).

Fylgjast þarf reglulega með blóðþrýstingi og hjartslætti. Sjúklingar sem missa minna en 5% af líkamsþyngd á þremur mánuðum ættu að hætta meðferð. Meðferðartími ætti aldrei að vera lengri en eitt ár.

Fréttatilkynning EMATil baka Senda grein