Fréttir

Lyfjastofnun bannar dreifingu á kynningar- og fræðsluhefti Merck Sharp & Dome

Meðal hlutverka Lyfjastofnunar er að hafa eftirlit með lyfjaauglýsingum og sjá til þess að kynning og dreifing lyfja sé í samræmi við gildandi lög og reglur, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.

12.3.2010

Lyfjastofnun barst kvörtun þann 20. nóvember sl. vegna kynningar- og fræðsluheftis sem dreift er af Icepharma hf. umboðsaðila Merck Sharpe & Dohme (MSD) á Íslandi. Um er að ræða kynningar- og fræðsluhefti um sykursýki og lyfseðilsskylda lyfið Januvia. Kynningar- og fræðsluheftið ber heitið „Góð ráð til að ná stjórn á sykursýki - náum betri stjórn á sjúkdómnum með aukinni þekkingu.“ Samkvæmt upplýsingum í bréfi sem Lyfjastofnun hefur undir höndum og fylgdi heftinu var því dreift til sérfræðinga, á göngudeildir og á heilsugæslustöðvar og ætlað heilbrigðisstarfsfólki. Einnig kemur fram í umræddu bréfi að fræðsluheftið nýtist heilbrigðisstarfsfólki við fræðslu til einstaklinga með sykursýki.

Umfjöllun í kynningar- og fræðsluhefti MSD felur í í sér brot gegn 2. mgr. 16. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.

Lyfjastofnun getur bannað og/eða látið afturkalla tiltekið kynningar- og fræðsluefni sem gefur rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um lyf auk þess sem stofnunin getur krafist þess að útgefandi sendi út leiðréttingar eða viðbótarskýringar á sambærilegan hátt, sbr. 1. mgr. 18. gr. lyfjalaga og 2. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 328/1995 um lyfjaauglýsingar.

Lyfjastofnun bannaði frekari dreifingu umrædds kynningar- og fræðsluheftis og fer fram á innköllun með vísan til 18. gr. lyfjalaga og 2. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 328/1995. Einnig fer Lyfjastofnun fram á að send verði út leiðrétting á upplýsingum um meðferðarmarkmið í blóðsykurstjórn í samræmi við athugasemdir stofnunarinnar, sbr. lið 2, til þeirra aðila sem fengu kynningar- og fræðsluheftið sent, með vísan til 18. gr. lyfjalaga og 2. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 328/1995.Til baka Senda grein