Fréttir

Ný lyf á markað 1. apríl

6.4.2010

Ný lyf

Esopram filmuhúðuð tafla, 5 mg, 10 mg, 15 mg og 20 mg. Virka innihaldsefnið í Esopram er escítalópram sem er þunglyndislyf og tilheyrir flokki sértækra serótónín endurupptökuhemla. Þessi lyf hafa áhrif á serótónínkerfið í heilanum með því að auka þéttni serótóníns. Esopram er notað við þunglyndi, kvíðaröskun, félagsfælni og þráhyggju- og árátturöskun. Það er lyfseðilsskylt.

Nplate stungulyfsstofn, lausn, 250 míkróg og 500 míkróg. Virka innihaldsefnið í Nplate er romiplostim sem er prótein sem notað er til að meðhöndla sjúklinga með of fáar blóðflögur vegna sjálfvakins (af óþekktri orsök) blóðflagnafæðarpurpura af ofnæmistoga (immune (idiopathic) thrombocytopenic purpura). Einungis sérfræðingar í blóðsjúkdómum mega ávísa lyfinu og notkun þess er bundin við sjúkrastofnanir.

Prevenar 13 stungulyf, dreifa. Prevenar 13 er pneumókokkabóluefni sem inniheldur 13 gerðir af Streptococcus pneumoniae bakteríunni. Lyfið er notað til bólusetningar gegn ífarandi sýkingum, lungnabólgu og bráðri miðeyrnabólgu af völdum Streptococcus pneumoniae hjá börnum á aldrinum 6 vikna til 5 ára. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Renvela filmuhúðuð tafla, 800 mg. Virka efnið í Renvela er sevelamer karbónat. Það bindur fosfat úr fæðu í meltingarveginum og dregur þannig úr styrk fosfats í blóði. Lyfið er notað til að hafa hemil á blóðfosfatsóhófi hjá fullorðnum sjúklingum í blóðskilun eða kviðskilun og hjá fullorðnum sjúklingum með langvinnan nýrnasjúkdóm, sem eru ekki í blóðskilun. Renvela er lyfseðilsskylt.

Tetraspan innrennslislyf, lausn, 60 mg/ml. Tetraspan inniheldur pólý(O‑2‑hýdroxýetýl)sterkju og blóðsölt. Það er blóðvökvalíki sem notað er til þess að auka rúmmál blóðs við yfirvofandi eða staðfestri blóðþurrð og losti. Notkun lyfsins er bundin við sjúkrastofnanir.

Topiramate Portfarma filmuhúðuð tafla, 25 mg, 50 mg og 100 mg. Tópíramat er flogaveikilyf. Það er notað sem einlyfjameðferð við flogum hjá fullorðnum og börnum eldri en 6 ára eða með öðrum lyfjum til að meðhöndla flog hjá fullorðnum og börnum eldri en 2 ára. Lyfið er einnig notað til að fyrirbyggja höfuðverk af völdum mígrenis hjá fullorðnum. Það er lyfseðilsskylt.

Nýtt dýralyf

Carepen vet. spenalyf, dreifa, 600 mg. Carepen vet. inniheldur benzýlpenicillínprokaín. Það er notað við júgurbólgu, í mjólkandi kúm, af völdum penicillínnæmra sýkla. (Notað samhliða penicillín stungulyfjum við júgurbólgu með einkennum, af völdum ífarandi bakteríutegunda s.s. S. aureus.) Lyfið er lyfseðilsskylt.

 

Listi yfir lyf markaðssett 2010 er hér.Til baka Senda grein