Fréttir

EpiPen/Epipen Jr. - misvísandi merkingar

Misvísandi merkingar á EpiPen/Epipen Jr. lyfjapennum geta mögulega leitt til rangrar notkunar.

4.11.2010

EpiPen og Epipen Jr. lyfjapennar innihalda adrenalín í sjálfvirku inndælingartæki og eru ætlaðir til neyðarmeðferðar við bráðum ofnæmisviðbrögðum. Takist sjúklingi ekki að gefa sér lyfið getur það haft lífshættulegar afleiðingar.

Markaðsleyfishafi hefur breytt merkimiða á lyfjapennunum eftir að tilkynnt var um tilfelli þar sem lyfjagjöf sjúklings hafði mistekist. Ekki er vitað um nein slík tilfelli á Íslandi. Í sumum tilfellum virðast sjúklingar hafa snúið pennanum öfugt við notkun hans.

Grunur leikur á því að það hvernig skýringarmynd sneri á pennanum hafi hugsanlega valdið misskilningi. Skýringarmyndin sjálf gaf réttar upplýsingar um notkun hans en sneri þannig að örin á myndinni benti ekki í átt að nálinni á pennanum sjálfum (svörtu nálarhlífinni).

Inndælingartækið virkar bara einu sinni, ekki þýðir að reyna að stinga aftur, jafnvel þótt meiri hluti lyfsins sé enn í lyfjapennanum.

Pennar með nýjum límmiða þar sem örin á skýringarmyndinni vísar að nál pennans eru komnir á markað á Íslandi. Enn eru þó líklegt að einhverjir sjúklingar hafi penna með eldri, misvísandi merkingu í fórum sínum. Samkvæmt upplýsingum markaðsleyfishafa fyrnast þeir pennar eigi síðar en 30. nóvember næstkomandi (þá er lyfið útrunnið).

Eftirfarandi myndir eru af pennum með gamla og nýja límmiðanum.

EpiPen með eldri merkingu. Örin á skýringarmyndinni bendir ekki á svarta nálarendann á pennanum:     Epipen1

EpiPen með nýrri merkingu. Örin á skýringarmyndinni bendir á svarta nálarendann á pennanum: 

Epipen2

Ábendingar til sjúklinga:

-       Skoðið lyfjapennann ykkar.

-       Athugið að stinga á svarta oddinum í utanvert lærið, ekki endanum með gráu hettunni.

-       Rifjið reglulega upp leiðbeiningar um rétta notkun EpiPen í fylgiseðlinum sem fylgir í pakkningu lyfsins.

-       Gangið úr skugga um að lyfjapenninn ykkar sé ekki fyrndur.

-        Hafið samband við lækni eða lyfjafræðing í lyfjabúð ef eitthvað er óljóst varðandi notkun EpiPen.

Ábendingar til lækna og lyfjabúða:

Læknar verða að tryggja að sjúklingar fái þjálfun í réttri notkun pennans áður honum er ávísað.

Lyfjafræðingum er ráðlagt að yfirfara leiðbeiningar um rétta notkun pennans með hverjum sjúklingi við afgreiðslu í lyfjabúð.

Ráðleggja skal sjúklingum að rifja reglulega upp leiðbeiningar í fylgiseðli um rétta notkun EpiPen, og hafa samband við lækni eða lyfjafræðing ef eitthvað er óljóst varðandi notkun pennans.Til baka Senda grein