Fréttir

Ný lyf á markað 1. október 2018

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1.október 2018.

16.10.2018

Ný lyf sem komu á markað 1.október 2018

Biktarvy, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur biktegravír natríum sem jafngildir 50 mg af biktegravíri, 200 mg af emtrícítabíni og tenófóvír alafenamíð fúmarati, sem jafngildir 25 mg af tenófóvír alafenamíði. Lyfið er ætlað til meðferðar hjá fullorðnum einstaklingum sem eru sýktir af alnæmisveiru af gerð 1 (HIV-1) án núverandi eða fyrri vísbendinga um veiruónæmi fyrir flokki intregrasahemla, emtrícítabíni eða tenófóvíri. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í smitsjúkdómum. Lyfið er sjúkrahúslyf , frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Duodopa, þarmahlaup. 1 ml inniheldur 20 mg af levódópa og 5 mg af karbídópaeinhýdrati. Lyfið er notað í meðferð við langt genginni Parkinsonsveiki með slæmum sveiflum í hreyfingum og ofhreyfni eða hreyfitruflunum, sem svarar meðferð við levódópa, þegar notkun annarra samsetninga Parkinsonslyfja hefur ekki borið fullnægjandi árangur. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Folsyra Evolan, töflur. Hver tafla inniheldur 5 mg af fólinsýru. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Lyfið er notað við skorti á fólínsýru af ýmsum ástæðum. Einnig er það notað sem fyrirbyggjandi áður en þungun verður og á meðgöngu, einkum þegar hætta á göllum í taugapípu er aukin. Lyfið er samheitalyf lyfsins Folacin 5 mg Pfizer sem ekki hefur markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Hypotron, töflur, Hver tafla inniheldur 2,5 eða 5 mg af midodrinhýdróklóríði. Lyfið er ætlað fullorðnum til meðhöndlunar alvarlegs réttstöðubundins lágþrýstings vegna sjálfvirkrar vanvirkni þegar leiðréttingarþættir hafa verið útilokaðir og önnur meðferðarúrræði hafa ekki nægileg áhrif. Lyfið er samheitalyf frumlyfsins Gutron sem ekki hefur markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Kyntheum, stungulyf, lausn í áfylltri sprautu. Hver áfyllt sprauta inniheldur 210 mg af bródalúmabi í 1,5 ml af lausn. Bródalúmab er einstofna mótefni fyrir menn framleitt með raðbrigðaerfðatækni í CHO-frumum úr eggjastokkum kínverska hamstra. Lyfið er ætlað til meðferðar á meðalslæmum eða slæmum skellupsóríasis hjá fullorðnum sem taldir eru þola altæka lyfjameðferð. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í gigtarlækningum, húðsjúkdómum og ónæmisfræði. Lyfið er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt. Lyfið er frumlyf.

Mometason Apofri, nefúði, dreifa. Hver úðaskammtur inniheldur mometasonfúróat einhýdrat, sem jafngildir 50 míkrógrömmum af mometasonfúróati. Lyfið inniheldur benzalkon klóríð, sem getur valdið nefslímsbólgu við langtímanotkun. Lyfið er ætlað til notkunar hjá fullorðnum og börnum, 3 ára og eldri til meðferðar við einkennum árstíðabundinnar eða langvarandi bólgu í nefslímhúð. Lyfið er einnig ætlað til meðferðar á sepum í nefi hjá fullorðnum, 18 ára og eldri. Lyfið er lausasölulyf.

Til baka Senda grein