Fréttir

Ný lyf á markað 1.ágúst 2018

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1.ágúst 2018.

15.8.2018

Ný lyf sem komu á markað 1.ágúst 2018

Lyf fyrir menn 

Lansoprazol Krka, magasýruþolin hörð hylki. Hvert hylki inniheldur 15 mg eða 30 mg af lansoprazoli. Hjálparefni með þekkta verkun er súkrósi. Lansoprazól er prótónpumpuhemill sem verkar í maga. Lyfið hemur lokastig sýrumyndunar í maga og hemur þannig seytingu magasýru. Það er m.a. notað í einkennameðferð við vélindabakflæði auk annarra sjúkdóma. Takmarkað magn lyfsins má selja í lausasölu.

Levetiracetam STADA, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 250 mg, 500 mg eða 1000 mg af levetiracetami. Lyfið er ætlað til einlyfjameðferðar við hlutaflogum með eða án síðkominna alfloga, hjá sjúklingum frá 16 ára aldri með nýgreina flogaveiki. Lyfið er einnig ætlað ásamt öðrum lyfjum til meðferðar við mismunandi tegundum flogaveiki. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Paliperidon Krka, forðatöflur. Hver forðatafla inniheldur 3 mg, 6 mg eða 9 mg af paliperidoni.  Lyfið er ætlað til meðferðar við geðklofa hjá fullorðnum og unglingum, 15 ára og eldri. Lyfið er einnig ætlað til meðferðar við geðhvarfaklofa (e. Schizoaffective disorder) hjá fullorðnum. Lyfið er lyfseðilsskylt.   

Rekovelle, stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna. Einn áfylltur fjölskammta lyfjapenni gefur 12 míkróg, 36 míkróg eða 72 míkróg  follitropin delta í 0,36 ml lausn, 1,08 ml lausn eða 2,16 ml lausn. Einn ml af lausn inniheldur 33.3 míkróg af follitropin delta framleitt með erfðatækni með því að nota frumulínu úr mönnum. Lyfið er notað til að stýra örvun eggjastokka til að ná fram þroska margra eggbúa hjá konum sem gangast undir tæknifrjóvgun t.d. við glasafrjóvgun eða flutning sáðfrumu inn í eggfrumu. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp og sérfræðinga í innkirtlasjúkdómum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Triplo, freyðitöflur. Hver freyðitafla inniheldur asetýlsalicýlsýru 500 mg og koffín 50 mg. Lyfið inniheldur 345 mg af natríum af natríum í hverri freyðitöflu. Sjúklingar á natríumskertu mataræði þurfa að hafa þetta í huga. Lyfið er ætlað til meðferðar á vægum verkjum og mígreni. Lyfið er lausasölulyf.

Valsartan Krka, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 80 mg eða 160 mg af valsartani. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Lyfið er ætlað til meðferðar við háþrýstingi, hjartabilun og hjá sjúklingum í klínísku jafnvægi með hjartabilun með einkennum eða einkennalausa slagbilsvanstarfsemi í vinstri slegi eftir nýlegt hjartadrep. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Valsartan/Hydrochlorothiazide Krka, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur: 80 mg af valsartani og 12,5 mg af hydrochlorothiazidi, 160 mg af valsartani og 12,5 mg af hydrochlorothiazidi eða 160 mg af valsartani og 25 mg af hydrochlorothiazidi. Lyfið er ætlað til meðferðar við frumkomnum háþrýstingi hjá fullorðnum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Strefen, munnholsúði, lausn. Einn úðaskammtur inniheldur 2,91 mg af flurbiprofeni, þrír úðaskammtar sem jafngilda einum skammti innihalda 8,75 mg, sem samsvarar 16,2 mg/ml af flurbiprofeni. Lyfið er notað sem skammtímameðferð til að draga úr einkennum bráðra hálssærinda hjá fullorðnum. Ráðlagt er að nota lyfið að hámarki í þrjá daga. Lyfið er lausasölulyf.

Lyf fyrir dýr

Baycoxine vet, mixtúra, dreifa handa nautgripum, svínum og sauðfé. Einn ml inniheldur toltrazúril 50 mg. Lyfið er m.a. notað fyrirbyggjandi gegn klínískum einkennum hníslasóttar hjá nautgripum, svínum og sauðfé. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Til baka Senda grein