Fréttir

Ný lyf á markað 1. ágúst 2019

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. ágúst 2019.

8.8.2019

Ný lyf á markað 1.ágúst 2019

Lyf fyrir menn

Alkindi, kyrni í hylkjum sem á að opna. Hvert hylki inniheldur 0,5 mg, 1 mg, 2 mg eða 5 mg af hýdrókortisóni. Lyfið er ætlað sem uppbótarmeðferð við vanstarfsemi nýrnahetta hjá ungbörnum, börnum og unglingum (frá fæðingu til < 18 ára). Lyfið er blendingslyf (e. hybrid medicine) og er lyfseðilsskylt.

Dupixent, stungulyf, lausn í áfylltri sprautu. Hver áfyllt einnota sprauta inniheldur 300 mg af dupilumabi í 2 ml lausn (150 mg/ml). Lyfið er ætlað til meðferðar við miðlungsmikilli til verulega mikillar ofnæmishúðbólgu hjá fullorðnum sjúklingum þegar altæk meðferð kemur til greina. Lyfið er einnig ætlað sem viðbótarviðhaldsmeðferð við svæsnum astma með bólgu af tegund 2 sem einkennist af fjölgun eósínfíkla í blóði og/eða hækkun FeNO, hjá fullorðnum og unglingum 12 ára og eldri, þegar fullnægjandi stjórnun er ekki náð með stórum skammti af innöndunarstera auk annars lyfs sem viðhaldsmeðferð. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í ofnæmis- og lungnasjúkdómum og sérfræðinga í húðsjúkdómum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Gabapentin Teva, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 600 mg af gabapentíni. Lyfið er notað sem viðbótarmeðferð þegar um er að ræða hlutaflog (e. partial epilepsy), með eða án síðkominna alfloga, hjá fullorðnum, unglingum og börnum 6 ára og eldri. Það er notað sem einlyfjameðferð þegar um er að ræða hlutaflog (e. partial epilepsy), með eða án síðkominna alfloga, hjá fullorðnum og unglingum 12 ára og eldri. Lyfið er einnig notað til meðferðar á útlægum taugaverkjum, svo sem slæmum taugaverkjum í tengslum við sykursýki og taugahvoti í kjölfar herpessýkingar hjá fullorðnum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Neurontin og er lyfseðilsskylt.

Sertralin WH, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur sertralin sem hýdróklóríð sem jafngildir 50 mg eða 100 mg af sertralini. Lyfið er ætlað til meðferðar á: alvarlegum þunglyndisköstum, fyrirbyggjandi gegn endurkomu alvarlegs þunglyndis, felmtursröskun með eða án víðáttufælni, þráhyggju-árátturöskun hjá fullorðnum og börnum á aldrinum 6-17 ára, félagslegri kvíðaröskun og áfallastreituröskun. Lyfið er samheitalyf lyfsins Zoloft og er lyfseðilsskylt.

Solifenacin Krka, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 5 eða 10 mg af solifenacin súccínati, sem jafngildir 3,8 mg eða 7,5 mg af solifenacini. Lyfið inniheldur mjólkursykur (laktósa). Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er ætlað til meðferðar á einkennum bráðs þvagleka og/eða aukinni tíðni þvagláta ásamt bráðri þvaglátaþörf, sem geta komið fram hjá sjúklingum með ofvirka þvagblöðru. Lyfið er samheitalyf lyfsins Vesicare og er lyfseðilsskylt.

Tramadol Krka, forðatöflur. Hver forðatafla inniheldur 100 mg, 150 mg eða 200 mg af tramadolhýdróklóríði. Lyfið inniheldur mjólkursykur (laktósa). Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest, skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er ætlað til meðferðar við miðlungi miklum til miklum verkjum. Tramadol Krka er ætlað fyrir fullorðna og börn, 12 ára og eldri. Lyfið er eftirritunarskylt og er lyfseðilsskylt. Það er samheitalyf lyfsins Nobligan Retard.

Treo Citrus, freyðitöflur. Hver freyðitafla inniheldur 500 mg af asetýlsalicýlsýru og 50 mg af koffíni. Lyfið inniheldur natríum. Ræða þarf við lækni eða lyfjafræðing ef sjúklingur þarf að taka 2 eða fleiri freyðitöflur oftar en 2 daga í viku í langan tíma, einkum ef honum hefur verið ráðlagt mataræði sem inniheldur lítið salt (natríum). Lyfið er ætlað til meðferðar við vægum verkjum og mígreni. Lyfið er lausasölulyf og markaðsleyfi þess byggir á að minnsta kosti tíu ára hefð (e. well established use) sé fyrir notkun virkra efna lyfsins til lækninga innan EES samkvæmt reglugerð um markaðsleyfi sérlyfja, merkingar þeirra og fylgiseðla.

Truxima, innrennslisþykkni, lausn. Hvert hettuglas inniheldur 100 mg eða 500 mg af rítúxímabi. Hver ml af þykkni inniheldur 10 mg af rítúxímab. Lyfið er ætlað til meðferðar fullorðinna við: eitilfrumukrabbameini sem er ekki af Hodgkins gerð, langvinnu eitilfrumuhvítblæði, iktsýki, hnúðaæðabólgu (e. granulomatosis with polyangiitis) og smásærri fjölæðabólgu (microscopic polyangiitis). Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt. Lyfið er líftæknilyfshliðstæða lyfsins MabThera.

Til baka Senda grein