Fréttir

Ný lyf á markað 1. apríl 2019

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. apríl 2019

11.4.2019

Ný lyf á markað 1. apríl 2019

Lyf fyrir menn

Flúoróúracil Accord, stungulyf/innrennslislyf, lausn. Einn ml af lausn inniheldur 50 mg af flúoróúracíli (sem natríumsalt sem myndast staðbundið). Lyfið inniheldur 7,78 mmól (178,2 mg) af natríum í hámarksdagskammti (600 mg/m2). Sjúklingar á natríumskertu mataræði þurfa að hafa þetta í huga. Lyfið er ætlað til meðferðar á mörgum algengum krabbameinum, einkum krabbameini í ristli, vélinda, brisi, maga, höfði og hálsi, og brjóstum. Það má nota ásamt öðrum krabbameinslyfjum og við geislameðferð. Lyfið er samheitalyf lyfins Cinkef-U 50 mg/ml stungulyf, sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er lyfseðilsskylt og er sjúkrahúslyf.

Gliclazíð Krka, töflur með breyttan losunarhraða. Hver tafla inniheldur 30 mg af gliclazidi. Gliclazíð Krka inniheldur mjólkursykur (laktósa), ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er ætlað til meðferðar við insúlínóháðri sykursýki (gerð 2) hjá fullorðnum, þegar breytt mataræði, hreyfing og þyngdartap eitt og sér nægir ekki til þess að koma á blóðsykurjafnvægi að nýju. Lyfið er samheitalyf lyfsins Diamicron Uno. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Lenalidomid Alvogen, hörð hylki. Hvert hylki inniheldur 5 mg, 10 mg, 15 mg eða 25 mg af lenalídómíði. Lenalidomid Alvogen inniheldur laktósa. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er ætlað: -sem eitt sér í viðhaldsmeðferð hjá fullorðnum sjúklingum með nýgreint mergæxli sem hafa gengist undir samgena stofnfrumuígræðslu,- í samsettri meðferð við mergæxli hjá fullorðnum sjúklingum sem ekki hafa fengið meðferð áður og eru ekki hæfir fyrir ígræðslu. Lyfið er ásamt dexametasóni einnig ætlað til meðferðar á fullorðnum sjúklingum með mergæxli sem hafa þegar fengið að minnsta kosti eina meðferð. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í blóðsjúkdómum. Lyfið er samheitalyf frumlyfsins Revlimid og er lyfseðilsskylt.

Noradrenalina Normon, innrennslisþykkni, lausn. Einn ml af lausn inniheldur noradrenalíntvítartrat 1 mg. Eitt mg af noradrenalíntvítartrati jafngildir 0,5 mg af noradrenalínbasa. Hjálparefni með þekkta verkun er natríummetabísúlfít 0,25 mg/ml. Lyfið er notað sem æðaþrengjandi lyf, notkun þess er samþykkt við meðhöndlun á bráðu lágþrýstingsfalli, sem geta komið fyrir eftir krómfíklaæxli (e. phaeochromacytoma), semjutaugaúrnám (e. sympathectomy), mænusótt, mænudeyfingu, hjartadrep, blóðsýkingarlost, blóðgjafir og aukaverkanir lyfja. Lyfið er einnig ætlað sem tímabundin samhliðameðferð við meðhöndlun á hjartastoppi eða bráðum lágþrýstingi. Lyfið er lyfseðilsskylt og er sjúkrahúslyf.

Paracaff, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 500 mg af parasetamóli og 65 mg af koffíni. Lyfið er ætlað til einkennameðferðar gegn vægum til miðlungs alvarlegum verkjum og/eða hita. Lyfið er ætlað fullorðnum, öldruðum og börnum 15 ára og eldri. Lyfið er samheitalyf lyfsins Panadol Extra sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er lausasölulyf og er heimilt að selja takmarkað magn lyfsins í lausasölu, mest 20 stk. handa einstaklingi.

Prasugrel Krka, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 5 eða 10 mg af prasugreli. Lyfið inniheldur mjólkursykur (laktósa). Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið inniheldur minna en 1 mmól (23 mg) af natríumi í hverri töflu, þ.e.a.s. er sem næst natríumlaust. Prasugrel Krka, gefið samtímis acetylsalicylsýru (ASA), er ætlað til að koma í veg fyrir segamyndun hjá fullorðnum sjúklingum með brátt kransæðaheilkenni þ.e. hvikula hjartaöng, hjartadrep án ST-hækkunar (UA/NSTEMI) eða hjartadrep með ST-hækkun (STEMI) sem gangast undir tafarlausa eða síðbúna kransæðavíkkun (PCI). Lyfið er samheitalyf lyfsins Efient. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Segluromet, filmuhúðar töflur. Hver tafla inniheldur 2,5 mg eða 7,5 mg ertugliflozin (sem ertugliflozin L-pyroglutamic sýra) og 1000 mg metformínhýdróklóríð. Lyfið er ætlað fullorðnum 18 ára og eldri með sykursýki af tegund 2 sem viðbót við mataræði og hreyfingu til að bæta stjórnun blóðsykurs: - hjá sjúklingum með óviðunandi stjórnun með þeim hámarksskammti sem þeir þola af metformini einu sér. –hjá sjúklingum á hámarksskammti sem þeir þola af metformini ásamt öðrum lyfjum til meðferðar við sykursýki. – hjá sjúklingum sem þegar eru á meðferð með ertugliflozini og metformini í sitt hvorri töflunni. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Zoledronic acid Actavis, innrennslisþykkni lausn. Eitt hettuglas með 5 ml þykkni inniheldur 4 mg af zoledronsýru (sem einhýdrat). Einn millilítri af þykkni inniheldur 0,8 mg zoledronsýru (sem einhýdrat). Lyfið er ætlað til varnar sjúkdómseinkennum frá beinum (brotum sem stafa af sjúkdómum, samföllnum hrygg, geislun eða aðgerð á beinum eða æxlisörvaðri blóðkalsíumhækkun) hjá fullorðnum sjúklingum með langt gengna illkynja sjúkdóma er finnast í beinum. Einnig er lyfið ætlað til meðferðar hjá fullorðnum sjúklingum við blóðkalsíumhækkun vegna æxla (e. tumor induced hypercalcemia). Lyfið er samheitalyf lyfsins Zometa sem er ekki á markaði á Íslandi. Lyfið er lyfseðilsskylt og er sjúkrahúslyf.

Dýralyf

Evalon, dreifa og leysir til inntökuúðunar handa hænsnum. Hver skammtur (0,007 ml) af óþynntu bóluefni inniheldur gróberandi hnísla sem eru unnir úr eftirfarandi veikluðum stofnum hnísildýra með stutt æviskeið: Eimeria acervulina, Eimeria brunetti, Eimeria maxima, Eimeria necatrix og Eimeria tenella. Lyfið er ætlað til virkrar ónæmingar hjá hænuungum frá eins dags aldri til að draga úr klínískum einkennum (niðurgangi), vefjaskemmdum í líffærum og útskilnaði hnísla í tengslum við hníslasótt af völdum Eimeria acervulina, Eimeria brunetti, Eimeria maxima, Eimeria necatrix og Eimeria tenella. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Myodine vet, stungulyf, lausn fyrir hunda og ketti. Hver ml inniheldur 25 mg nandrólónárat sem jafngildir 15 mg af nandrólóni. Lyfið er ætlað hundum og köttum sem viðbótarmeðferð við sjúkdómum þegar talið er að meðferð með vefaukandi sterum veiti ávinning. Lyfið er samheitalyf dýralyfsins Laurabolin 25 mg/ml stungulyfs sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Til baka Senda grein