Fréttir

Ný lyf á markað 1. janúar 2019

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1.janúar 2019.

17.1.2019

Ný lyf á markað 1.janúar 2019

Lyf fyrir menn

CYSTADROPS, augndropar, lausn. Hver ml inniheldur merkaptamínhýdróklóríð sem jafngildir 3,8 mg af merkaptamíni (systeamíni). Lyfið inniheldur bensalkóníum klóríð sem getur valdið ertingu í auga og mislitun í mjúkum augnlinsum. Því skal forðast snertingu við mjúkar augnlinsur í minnst 15 mínútur eftir notkun augndropa. Cystadrops er ætlað til meðferðar við systínkristalútfellingum í hornhimnu hjá fullorðnum og börnum 2 ára og eldri með systíngeymdarkvilla. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í efnaskipta- og innkirtlasjúkdómum og sérfræðinga í nýrnasjúkdómum. Lyfið er lyfseðilsskylt og er frumlyf.

Diklofenak Apofri, hlaup. Hvert gramm af hlaupi inniheldur 11,6 mg (1,16%) af diclofenac tvíetýlamíni, sem jafngildir 10 mg af diclofenac natríumi. Lyfið inniheldur einnig própýlenglýkól sem getur valdið húðertingu. Diklofenak Apofri er ætlað til meðferðar við einkennum vægs til miðlungi mikils, staðbundins verks í tengslum við meiðsli í vöðva eða lið, t.d. íþróttameiðsli. Lyfið er blendingslyf (e. hybrid medicine) og er lausasölulyf.

Imatinib ratiopharm, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 100 mg eða 400 mg af imatinibi (sem mesílat). Lyfið er ætlað við ýmsum gerðum krabbameina. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum og blóðsjúkdómum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Glivec og er lyfseðilsskylt.

Ninlaro, hörð hylki. Hvert hylki inniheldur 4 mg, 3 mg eða 2,3 mg ixazomibi (sem 5,7 mg, 4,3 mg eða 3,3 mg ixazomibsítrati). Lyfið er ætlað, í samsettri meðferð með lenalídómíði og dexametasóni, til meðferðar á mergæxlageri hjá fullorðnum sjúklingum sem hafa fengið meðferð að minnsta kosti einu sinni áður. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í blóðsjúkdómum. Lyfið er lyfseðilsskylt og er frumlyf.

Ozempic, stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna. Einn ml af lausn inniheldur 1,34 mg af semaglútíði. Einn áfylltur lyfjapenni inniheldur 2 mg eða 4 mg af semaglútíði í 1,5 ml eða 3,0 ml af lausn. Semaglútið er glúkagón-lík peptíð-1 (GLP-1) hliðstæða úr mönnum framleidd með raðbrigða DNA-tækni í Saccharomyces cerevisiae. Lyfið er ætlað til meðferðar á fullorðnum með ófullnægjandi stjórn á sykursýki af tegund 2 sem viðbót við mataræði og hreyfingu.

  • Sem meðferð með einu lyfi þegar ekki er hægt að nota metformín vegna óþols eða frábendinga.
  • Sem viðbót við önnur sykursýkilyf.

Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er lyfseðilsskylt og er frumlyf.

Steglatro, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 5 mg eða 15 mg ertugliflozin (sem ertugliflozin L-pyroglutamic sýra). Steglatro inniheldur laktósa. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest á að hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er ætlað fullorðnum 18 ára og eldri með sykursýki af tegund 2 sem viðbót við matarræði og hreyfingu til að bæta stjórnun blóðsykurs:

  • Sem einlyfjameðferð hjá sjúklingum þegar notkun metformins hentar ekki vegna óþols eða frábendinga.
  • Til viðbótar við önnur lyf til meðferðar við sykursýki.

Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er lyfseðilsskylt og er frumlyf.

Tremfya, stungulyf, lausn í áfylltri sprautu. Hver áfyllt sprauta inniheldur 100 mg af guselkumabi í 1 ml lausn. Guselkumab er að öllu leyti manna ónæmisglóbúlín G1 lambda (IgG1λ) einstofna mótefni fyrir interleukin (IL)-23 prótein, framleitt í eggjastokkafrumum kínverskra hamstra (CHO) með DNA samrunarerfðatækni. Tremfya er ætlað til meðferðar á miðlungsmiklum og verulegum skellupsoriasis (e. plaque psoriasis) hjá fullorðnum þegar altæk meðferð á við. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í húðsjúkdómum og ofnæmissjúkdómum. Lyfið er lyfseðilsskylt og er frumlyf.

Warfarin Teva, töflur. Hver tafla inniheldur 1 mg eða 3 mg af warfarínnatríum. Lyfið er notað til að fyrirbyggja blóðrek í slagæðum þegar um er að ræða gigtsóttarhjartasjúkdóm og gáttatif, til að fyrirbyggja og meðhöndla segamyndun í bláæðum og lungnasega, til að fyrirbyggja segarek eftir ísetningu gervihjartaloku og gegn skammvinnum blóðþurrðarköst í heila. Lyfið er lyfseðilsskylt og er samheitalyf lyfsins Marevan sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi.

 

Dýralyf

Genta-Equine, stungulyf, lausn fyrir hesta. Hver ml inniheldur 100 mg gentamícín (sem gentamícínsúlfat). Lyfið er ætlað til meðferðar við sýkingum í neðri öndunarvegi hesta af völdum loftháðra, Gram-neikvæðra baktería sem næmar eru fyrir gentamícíni. Lyfið er lyfseðilsskylt og má eingöngu nota handa dýrum þegar dýralæknir gefur það sjálfur.


Ný lyf sem komu á markað 1.janúar 2019 (pdf)

Til baka Senda grein