Fréttir

Ný lyf á markað 1. júní 2019

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. júní 2019.

19.6.2019

Lyf fyrir menn


Enalapril-Hydrochlorthiazid Krka, töflur. Hver tafla inniheldur 20 mg af enalapril maleati, sem jafngildir 15,29 mg af enalaprili og 12,5 mg af hydrochlorothiazidi. Lyfið inniheldur mjólkursykur (laktósa). Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækninn áður en lyfið er tekið inn. Enalapril-Hydrochlorthiazid Krka er ætlað til notkunar við slagæðaháþrýstingi sem ekki næst stjórn á með einlyfjameðferð. Lyfið er samheitalyf lyfsins Renitec comp sem ekki hefur markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Imfinzi, innrennslisþykkni, lausn. Hver ml af innrennslisþykkni, lausn inniheldur 50 mg af durvalumabi. Durvalumab er framleitt með raðbrigða DNA tækni í eggjastokkum kínverskra hamstra. Lyfið sem einlyfjameðferð er ætlað meðferðar á staðbundnu langt gengnu, óskurðtæku lungnakrabbameini sem ekki er af smáfrumugerð (NSCLC) hjá fullorðnum með PD-L1 æxlistjáningu í ≥ 1% af æxlisfrumum og þegar sjúkdómurinn hefur ekki versnað í kjölfar krabbameinslyfjameðferðar sem byggist á platínulyfi og geislameðferð. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf, sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt.

Meropenem WH, stungulyfs-/innrennslisstofn. Hvert hettuglas inniheldur meropenemþríhýdrat sem jafngildir 500 mg eða 1 g af vatnsfríu meropenemi. Meropenem WH inniheldur natríum, lyfið inniheldur u.þ.b. 2,0 mEq af natríum í hverjum 500 mg skammti eða 4,0 mEq í hverju 1,0 g skammti sem ætti að hafa í huga hjá sjúklingum á natríumskertu mataræði. Láta þarf lækni, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðing vita ef sjúklingur er með sjúkdóm sem krefst þess að fylgjast þarf með inntöku natríum. Lyfið er ætlað til meðferðar við ýmsum sýkingum hjá fullorðnum og börnum 3 mánaða og eldri, til dæmis: alvarlegri lungnabólgu, lungnaberkjusýkingu hjá sjúklingum með slímseigjusjúkdóm, flóknum þvagfærasýkingum og flóknum sýkingum í kviðarholi. Lyfið er samheitalyf lyfsins Meronem og er lyfseðilsskylt.

Mylotarg, stofn fyrir innrennslisþykkni, lausn. Hvert hettuglas með stofni fyrir innrennslisþykkni, lausn, inniheldur 5 mg af gemtuzumab ozogamicini. Eftir blöndun inniheldur þykknið 1 mg/ml af gemtuzumab ozogamicini. Gemtuzumab ozogamicin er mótefni samtengt við lyf (e. antibody-drug conjugate), þ.e. einstofna mótefni gegn CD33 sem tengt er með samgildu tengi við frumudrepandi efnið N-asetýl-gamma-calicheamicín. Lyfið er ætlað til samsettrar meðferðar með daunorubicíni og cýtarabíni, hjá sjúklingum 15 ára og eldri, með frumkomið, áður ómeðhöndlað CD33 jákvætt brátt mergfrumuhvítblæði, að undanskildu bráðu formerglingahvítblæði. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf, sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt.

Ornibel, skeiðarinnlegg. Ornibel inniheldur 11,0 mg etonogestrel og 3,474 mg etinylestradíól. Daglega losna að meðaltali 0,120 mg af etonogestreli og 0,015 mg af etinylestradíóli úr hringnum í 3 vikur. Lyfið er getnaðarvörn og er ætlað konum á barneignaraldri. Öryggi og verkun hefur verið staðfest hjá konum á aldrinum 18-40 ára. Við ákvörðun um að ávísa Ornibel skal taka tillit til áhættuþátta sem eru til staðar hjá konunni, sérstaklega varðandi bláæðasegarek (VTE) og hvernig hættan á bláæðasegareki með Ornibel er samanborið við aðra samsetta hormónagetnaðarvörn. Lyfið er samheitalyf lyfsins NuvaRing. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Pregabalin Medical Valley, hörð hylki. Hvert hylki inniheldur 25 mg, 75 mg eða 150 mg pregabalín. Lyfið inniheldur laktósa einhýdrat. Ef sjúklingur hefur mjólkursykuróþol þarf hann að hafa samband við lækni áður en hann hefur töku lyfsins. Pregabalin Medical Valley er notað til meðferðar á útlægum og miðlægum taugaverkjum hjá fullorðnum, hjá fullorðnum sem viðbótarmeðferð við flogaveiki með staðflogum, með eða án síðkominna alfloga og til meðferðar á almennri kvíðaröskun hjá fullorðnum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Lyrica. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Tagrisso, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 80 mg af osimertinib (sem mesylat). Tagrisso sem einlyfjameðferð er ætlað til meðferðar: - sem fyrstavalsmeðferð hjá fullorðnum sjúklingum með lungnakrabbamein, sem ekki er af smáfrumugerð, sem er staðbundið langt gengið eða með meinvörpum með virkjandi stökkbreytingar í vaxtarþáttarviðtaka í húðþekju (EGFR). – Hjá fullorðnum sjúklingum með lungnakrabbamein, sem ekki er af smáfrumugerð, sem er staðbundið langt gengið eða með meinvörpum og með T790M stökkbreytingu í EGFR. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Trelegy Ellipta, innöndunarduft, afmældir skammtar. Hver stök innöndun gefur skammt sem er 92 míkróg af flútíkasónfúróati, 65 míkróg af umeclidiniumbrómíði sem jafngildir 55 míkróg af umeclidinium og 22 míkróg af vílanteróli (sem trífenatat). Lyfið inniheldur laktósa. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er ætlað sem viðhaldsmeðferð hjá fullorðnum sjúklingum með miðlungsmikla til alvarlega langvinna lungnateppu (LLT) sem fá ekki nægilega meðferð með samsetningu af innöndunarstera og langverkandi β-örva eða með samsetningu af langverkandi β2-örva og langverkandi múskarínblokka. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Dýralyf


BelOcain vet. , stungulyf, lausn handa hestum, hundum og köttum. 1 ml af stungulyfi, lausn inniheldur 20 mg lídókaínhýdróklóríð sem jafngildir 16,23 mg lídókaín. Hjálparefni með þekkta verkun eru metýlparahýdróxýbensóat (E 218) 1,8 mg og própýlparahýdróxýbensóat 0,2 mg. Lyfið er ætlað til staðbundinnar deyfingar/leiðsludeyfingar (e. nerve block), þ.m.t. blokkdeyfingu svæðis. Einnig er lyfið ætlað til yfirborðsdeyfingar á slímhúðum. Lyfið má eingöngu nota handa dýrum þegar að dýralæknir gefur það sjálfur. Lyfið er samheitalyf lyfsins Lidocainhydrochlorid sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Hlaða niður lista: Ný lyf á markað 1. júní 2019 (pdf)

Til baka Senda grein