Fréttir

Ný lyf á markað 1. mars 2019

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. mars 2019.

22.3.2019

Ný lyf á markað 1. mars 2019

Azitromicina Normon, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 500 mg af azitrómýcíni sem tvíhýdrat. Lyfið inniheldur laktósa. Sjúklingar með arfgengt galaktósaóþol, algeran laktasaskort eða vanfrásog glúkósa-galaktósa skulu ekki nota lyfið. Lyfið er ætlað gegn bakteríusýkingum af völdum örvera sem eru næmar fyrir azitrómýcíni. Lyfið er samheitalyf frumlyfsins Zitromax. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Carmustine Obvius, stofn og leysir fyrir innrennslisþykkni, lausn. Hvert hettuglas með stofni fyrir innrennslisþykkni inniheldur 100 mg af karmústíni. Eftir blöndun og þynningu inniheldur einn ml af lausn 3,3 mg af karmústíni. Lyfið inniheldur 0,57 vol% af etanóli, þ.e. allt að 7,62 g í hverjum skammti sem jafngildir 11,2 ml af bjór eða 4,65 ml af víni í hverjum skammti. Þetta er skaðlegt fyrir þá sem þjást af áfengissýki og taka skal tillit til þessa hjá áhættuhópum, eins og sjúklingum með lifrarsjúkdóm eða flogaveiki. Lyfið hefur verkun á eftirfarandi illkynja æxli, eitt og sér eða í samsettri meðferð með öðrum æxlishemjandi lyfjum og/eða annarri meðferð (geislameðferð, skurðaðgerð). – Heilaæxli (taugakímsæxli, tróðæxli í heilastofni, mænukímfrumuæxli, stjarnfrumnaæxli og heila- og mænuþelsæxli), meinvörp í heila. – Non-Hodgkins eitlaæxli og Hodgkins sjúkdóm sem framhaldsmeðferð. Lyfið er samheitalyf lyfsins Carmubris sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi. Það er lyfseðilsskylt og er sjúkrahúslyf.

Dexavit, stungulyf, lausn. 1 ml inniheldur 4 mg dexametasónfosfat sem dexametasónnatríumfosfat 4,37 mg. 4 mg af dexametasónfosfati jafngilda 3,33 mg af dexametasóni. Lyfið tilheyrir flokki sykurstera og er notað í margvíslegum tilgangi, meðal annars í meðferð við gigtarsjúkdómum, bandvefssjúkdómum, húðsjúkdómum, smitsjúkdómum og bólgusjúkdómum. Einnig sem fyrirbyggjandi meðferð og meðferð við ógleði og uppköstum af völdum frumuhemjandi krabbameinslyfja, og við ógleði eftir skurðaðgerð Lyfið er samheitalyf lyfsins Fortecortin Solution sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Flixabi, stofn fyrir innrennslisþykkni, lausn. Eitt hettuglas inniheldur 100 mg af infliximabi. Infliximab er blendings manna-músa IgG1 einstofna mótefni sem er myndað í frumum úr eggjastokkum kínverska hamstra (CHO) með DNA samrunaerfðatækni. Lyfið er notað við sjúkdómum eins og iktsýki, Crohns sjúkdómi hjá fullorðnum, Crohns sjúkdómi hjá börnum, sáraristilbólgu, sáraristilbólgu hjá börnum, sóraliðagigt og sóra. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt. Lyfið er líftæknilyfshliðstæða lyfsins Remicade.

Imraldi, stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna eða sprautu. Hver 0,8 ml stakur skammtur í áfylltri sprautu eða lyfjapenna inniheldur 40 mg af adalimumabi. Adalimumab er einstofna mannamótefni unnið með raðbrigðaerfðatækni, framleitt í eggjastokkafrumum kínverskra hamstra (CHO). Lyfið inniheldur 20 mg af sorbitóli í hverri áfylltri sprautu eða lyfjapenna. Sjúklingar með arfgengt frúktósaóþol, sem er mjög sjaldgæft, skulu ekki nota lyfið. Lyfið inniheldur einnig minna en 1 mmól (23 mg) af natríum í 0,8 ml skammti, þ.e.a.s. nær laust við natríum. Lyfið er ónæmisbælandi og er notað við sjúkdómum eins og iktsýki, sjálfvakinni liðagigt hjá börnum, áslægum hryggbólgusjúkdómi, sóraliðbólgu, sóra, skellusóra hjá börnum, graftarmyndandi svitakirtlabólgu, Crohns sjúkdómi, Crohns sjúkdómi hjá börnum, sáraristilbólgu og æðahjúpsbólgu. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í gigtarlækningum, húðsjúkdómum, meltingarsjúkdómum, gigtarsjúkdómum barna, ónæmisfræði og augnlækningum. Lyfið er lyfseðilsskylt. Lyfið er líftæknilyfshliðstæða lyfsins Humira.

Melatonin Vitabalans, töflur. Hver tafla inniheldur 3 eða 5 mg af melatonini. Lyfið er ætlað til skammtíma meðferðar við flugþreytu hjá fullorðnum. Lyfið er lyfseðilsskylt. Markaðsleyfi lyfsins er veitt á þeim forsendum að hefð er fyrir notkun þess (e. well established use).

Pelgraz, stungulyf, lausn í áfylltri sprautu. Hver áfyllt sprauta inniheldur 6 mg pegfilgrastim í 0,6 ml stungulyfi, lausn. Lyfið er framleitt með DNA samrunaerfðatækni í Escherichia coli og í kjölfarið fylgir samtenging við pólýetýlenglýkól (PEG). Styrkleikinn er 20 mg/ml að teknu tilliti til PEG-hópsins. Lyfið inniheldur 50 g af sorbitóli í hverri rúmmálseiningu sem jafngildir 30 mg í 6 mg skammti. Lyfið inniheldur minna en 1 mmól (23 mg) af natríum í hverri 6 mg skammtaeiningu, þ.e.a.s. er sem næst natríumlaust. Lyfinu er ætlað að stytta þann tíma sem daufkyrningafæð (neutropenia) varir og til að draga úr tíðni daufkyrningafæðar með hita (febrile neutropenia) hjá fullorðnum sjúklingum í krabbameinslyfjameðferð, en þó ekki langvarandi kyrningahvítblæði (chronic myeloid leukaemia) og mergmisþroska (myelodysplastic syndromes). Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum og blóðsjúkdómum. Lyfið er lyfseðilsskylt og er líftæknilyfshliðstæða lyfsins Neulasta.

Steglujan, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 5 mg eða 15 mg ertugliflozin (sem ertugliflozin L-pyroglutamic sýra) og 100 mg sitagliptin sem sitagliptinfosfateinhýdrat. Lyfið er ætlað fullorðnum 18 ára og eldri með sykursýki af tegund 2 sem viðbót við mataræði og hreyfingu til að bæta stýringu blóðsykurs: þegar metformin og/eða sulfonýlúrea og eitt af stöku virku efnum Steglujan stýra ekki blóðsykri með viðunandi hætti, hjá sjúklingum sem þegar eru í meðferð með ertugliflozini og sitagliptini hvort í sinni töflunni. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er lyfseðilsskylt og er frumlyf.

Taflotan, augndropar, lausn. Einn ml af lausn inniheldur 15 míkrógrömm af taflúprosti. Lyfið er meðal annars notað til að draga úr hækkuðum augnþrýstingi hjá sjúklingum með gleiðhornsgláku og háþrýsting í auga. Einnig sem einlyfjameðferð hjá sjúklingum sem hefðu ávinning af augndropum án rotvarnarefnis, þeim sem hafa ekki svarað nægilega upphaflegri meðferð, og í tilvikum þar sem upphafleg meðferð hefur valdið óþoli eða verið frábending. Lyfið er einnig notað sem viðbótarmeðferð við beta-blokka meðferð. Lyfið er lyfseðilsskylt og er frumlyf. Taflotan kom fyrst á markað hérlendis 1.3.2010 sem lausn í stakskammtaíláti, en kemur nú á markað í 3 ml glösum.

Asacol, töflur með breyttan losunarhraða. Hver tafla með breyttan losunarhraða inniheldur 1.600 mg af mesalazíni. Lyfið er ætlað til meðferðar við vægri eða miðlungi alvarlegri sáraristilbólgu. Einnig er það notað til að lengja þann tíma sem sjúkdómseinkenni eru í lágmarki. Lyfið er lyfseðilsskylt og er blendingslyf (e. hybrid medicine).

Til baka Senda grein