Fréttir

Ný lyf á markað 1.nóvember 2018

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1.nóvember 2018.

13.11.2018

Ný lyf sem komu á markað 1.nóvember 2018

Lyf fyrir menn

Blitzima, Innrennslisþykkni, lausn. Hver ml af þykkni inniheldur 10 mg af rítúxímabi. Lyfið er ætlað til meðferðar fullorðinna við: eitilfrumukrabbameini sem er ekki af Hodgkins gerð, langvinnu eitilfrumuhvítblæði og húðaæðabólgu (e. granulomatosis with polyangiitis) og smásærri fjölæðabólgu (microscopic polyangiitis). Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt. Lyfið er líftæknilyfshliðstæða lyfsins MabThera.

Kisqali, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur ribociclib succinat, sem samsvarar 200 mg af ribociclibi. Lyfið inniheldur sojalecitín, ef sjúklingur er með ofnæmi fyrir jarðhnetum eða soja á hann ekki að nota lyfið. Lyfið er, í samsettri meðferð með aromatasahemli, ætlað til meðferðar við hormónaviðtaka-jákvæðu og manna húðþekjuvaxtarviðtaka 2-neikvæðu (HER2) staðbundnu, langt gengnu brjóstakrabbameini eða brjóstakrabbameini með meinvörpum hjá konum eftir tíðahvörf, sem upphafsmeðferð með lyfi með verkun á innkirtla. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum. Lyfið er sjúkrahúslyf og lyfseðilsskylt. Lyfið er frumlyf.

MavenClad, töflur. Hver tafla inniheldur 10 mg af kladríbíni. Lyfið inniheldur er sorbítól, sjúklingar með arfgengt frúktósaóþol skulu ekki nota lyfið. Lyfið er ætlað til meðferðar hjá fullorðnum sjúklingum með mjög virkt heila- og mænusigg (MS) með köstum, skilgreint samkvæmt klínískum einkennum eða myndgreiningu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í taugasjúkdómum. Lyfið er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt. Lyfið er frumlyf.

Movicol Junior Neutral, mixtúruduft, lausn. Hvert stakskammtaílát með Movicol Junior Neutral inniheldur eftirtalin virk efni: macrogol 3350 6,563 g, natríumklóríð 175,4 mg, natríumhýdrógenkarbónat 89,3 mg og kalíumklóríð 25,1 mg. Lyfið er ætlað til meðferðar á langvinnri hægðatregðu hjá börnum á aldrinum 2-11 ára. Meðferð má ekki standa yfir lengur en 4 vikur. Lyfið er lausasölulyf og frumlyf.

Oxcarbazepin Jubilant, filmuhúðaðar töflur, Hver tafla inniheldur 300 mg eða 600 mg af oxcarbazepini. Lyfið er ætlað til meðferðar á staðflogum með eða án síðkominna krampaalfloga. Lyfið er lyfseðilsskylt. Lyfið er samheitalyf fyrir lyfið Trileptal.

Spinraza, stungulyf, lausn. Hver ml inniheldur 2,4 mg af nusinersen. Lyfið er ætlað til meðferðar á 5q mænuhrörnunarsjúkdómi (SMA). Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt. Lyfið er frumlyf.

Valsartan Jubilant, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 80 mg eða 160 mg af valsartani. Lyfið inniheldur laktósa. Lyfið er ætlað til meðferðar við háþrýstingi, nýlegu hjartadrepi og hjartabilun. Lyfið er lyfseðilsskylt og er samheitalyf lyfsins Diovan.

Valsartan/Hydroklortiazid Jubilant, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 160 mg af valsartani og 12,5 mg af hydrochlorothiazidi. Lyfið er ætlað til meðferðar við frumkomnum háþrýstingi hjá fullorðnum. Lyfið er lyfseðilsskylt og er samheitalyf fyrir Diovan Comp.

Zonnic Pepparmint, munnholsúði, lausn. 0,07 ml innihalda 1 mg af nicotini, sem samsvarar 1 mg af nicotini í hverjum úða. Hjálparefni með þekkta verkun er etanól. Lyfið er ætlað til meðferðar við tóbaksfíkn með því að draga úr löngun í nicotin og úr fráhvarfseinkennum, og auðvelda þannig reykingafólki sem er reiðubúið að hætta að reykja að venja sig af tóbaki eða til að auðvelda reykingafólki sem getur ekki eða vill ekki hætta að reykja, að draga úr reykingum. Lyfið er blendingslyf (e. hybrid medicine) og er lausasölulyf.

 

Lyf fyrir dýr

Busol, stungulyf, lausn handa nautgripum, hestum og kanínum. Einn ml inniheldur Buserelin sem buserelinasetat 0,004 mg. Hjálparefni með þekkta verkun er bensýlalkóhól. Lyfið er ætlað til eftirfarandi ábendinga:

  • Hjá kúm: örvun eggloss hjá kúm með ríkjandi eggbú, samstilling gangmáls og örvun eggloss og meðferð við eggbúsbelgjum.
  • Hjá hryssum: örvun eggloss og gangmáls hjá merum og bættri þungunartíðni.
  • Hjá kanínum: örvun eggloss við sæðingu eftir got og bættri getnaðartíðni.                           Lyfið er lyfseðilsskylt. Lyfið flokkast sem lyf sem hefð er fyrir notkun .


Procapen vet, spenalyf, dreifa handa nautgripum. Hver 10 ml spenadæla inniheldur 3,0 g bensýlpenisillín prókaíneinhýdrat sem jafngildir 1,7 g af bensýlpenisillíni. Lyfið er ætlað til meðferðar við júgurbólgu hjá mjólkandi kúm af völdum bensýlpensillín næmra stafýlókokka og streptókókka. Lyfið er lyfseðilsskylt og er samheitalyf við lyfið Procain-Penicillin-G Injektor aniMedica sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi.

Til baka Senda grein