Fréttir

Ný lyf á markað 1.nóvember 2019

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. nóvember 2019.

20.11.2019

Ný lyf á markað 1.nóvember 2019

AJOVY, stungulyf, lausn í áfylltri sprautu. Ein áfyllt sprauta inniheldur 225 mg af fremanezúmabi. Fremanezúmab er mannaðlagað einstofna mótefni, sem framleitt er í frumum úr eggjastokkum kínverska hamstra (CHO) með raðbrigða DNA tækni. Lyfið er ætlað sem fyrirbyggjandi meðferð við mígreni hjá fullorðnum með minnst fjóra mígrenidaga í mánuði. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í taugasjúkdómum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Asubtela, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 0,03 mg etinýlestradíól og 3 mg dróspírenón. Lyfið inniheldur laktósa. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Asubtela er getnaðarvarnartafla til inntöku, notuð til að koma í veg fyrir þungun. Lyfið eykur lítillega hættuna á blóðtappa í bláæðum og slagæðum, einkum á fyrsta ári notkunar eða þegar byrjað er að nota samsetta hormónagetnaðarvörn aftur eftir a.m.k. fjögurra vikna hlé. Því þarf að taka tillit til núverandi áhættuþátta sjúklings, einkum hvað varðar bláæðasegarek, og hvernig hætta á bláæðasegareki með Asubtela er samanborið við aðrar samsettar hormónagetnaðarvarnir. Lyfið er samheitalyf lyfsins Yasmin. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Buccolam, munnholslausn. Hver áfyllt sprauta inniheldur 10 mg af mídazólami sem hýdróklóríð í 2 ml af lausn. Lyfið er ætlað til meðferðar við langvarandi bráðum krampaflogum hjá ungbörnum, smábörnum, börnum og unglingum (3 mánaða til <18 ára). Hjá ungbörnum á aldrinum 3-6 mánaða skal meðferð fara fram á sjúkrahúsi þar sem hægt er að hafa eftirlit og endurlífgunarbúnaður er aðgengilegur. Lyfið er blendingslyf (e. hybrid medicine) og er lyfseðilsskylt.

Methylphenidate Teva, hörð hylki með breyttan losunarhraða. Hvert hylki með breyttan losunarhraða inniheldur 8,65 mg, 17,3 mg, 25,95 mg, 34,6 mg eða 51,9 mg af metýlfenidati sem samsvarar 10 mg, 20 mg, 30 mg, 40 mg eða 60 mg af metýlfenidathýdróklóríð. Metýlfenidat er ætlað til notkunar sem þáttur í heildstæðri meðferð við ofvirkni með athyglisbresti (ADHD) hjá börnum 6 ára og eldri, og hjá fullorðnum þegar stuðningsúrræði ein sér nægja ekki. Læknir með reynslu af meðferð við ADHD, til dæmis barnalæknir, barna- og unglingageðlæknir eða geðlæknir skal hefja og fylgja eftir meðferð. Lyfið er samheitalyf lyfsins Ritalin Uno og er eftirritunarskylt og lyfseðilsskylt.

Oxycodone/Naloxone Alvogen, forðatöflur. Hver forðatafla inniheldur 5 mg, 10 mg, 20 mg eða 30 mg af oxýkódonhýdróklóríð og 2,5 mg, 5 mg, 10 mg eða 15 mg af naloxónhýdróklóríð. Lyfið er ætlað til notkunar við miklum verkjum sem ekki fæst nægileg stjórn á nema með ópíóíð verkjalyfjum. Ópíóíð mótlyfinu naloxóni er bætt í til að vinna gegn hægðatregðu af völdum ópíóíða með því að blokka verkun oxýkódons við ópíóíðviðtaka staðbundið í þörmum. Lyfið er ætlað fullorðnum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Targin og er eftirritunarskylt. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Travoprost/Timolol Medical Valley, augndropar, lausn. Hver ml af lausn inniheldur 40 míkrógrömm af travóprosti og 5 mg af tímólóli sem tímólólmaleat. Lyfið inniheldur 150 míkrógrömm benzalkónklóríð í hverjum ml af lausn. Benzalkónklóríð getur sogast inn í mjúkar augnlinsur og breytt lit þeirra. Benalkónklóríð getur einnig valdið ertingu í augum, sérstaklega ef sjúklingur er með þurr augu eða truflanir á hornhimnu (glært lag fyrir framan augað). Lyfið inniheldur einnig makrógólglýserólhýdroxýsterat 40 sem getur valdið húðviðbrögðum.

Augndroparnir eru ætlaðir fyrir fullorðna til að lækka augnþrýsting hjá sjúklingum með gleiðhornsgláku eða of háan augnþrýsting, þegar ekki hefur náðst viðunandi árangur með staðbundnum beta-blokkum eða prostaglandínhliðstæðum. Lyfið er blendingslyf (e. hybrid medicine) og byggir hluti markaðsleyfi lyfsins á gögnum um lyfið DuoTrav. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Travoprost/Timolol STADA, augndropar, lausn. Hver ml af lausn inniheldur 40 míkrógrömm af travóprosti og 5 mg af tímólóli sem tímólólmaleat. Lyfið inniheldur bensalkónklóríð, sem getur valdið ertingu í auga og breytt lit mjúkra augnlinsa. Forðast skal að lyfið komist í snertingu við mjúkar augnlinsur. Einnig inniheldur lyfið makrógólglýserólsterat 40 sem getur valdið húðviðbrögðum. Lyfið er ætlað til að lækka augnþrýsting hjá fullorðnum sjúklingum með gleiðhornsgláku eða of háan augnþrýsting þegar ekki hefur náðst viðunandi árangur með staðbundnum beta-blokkum eða prostaglandínhliðstæðum. Lyfið er blendingslyf (e. hybrid medicine) og byggir hluti markaðsleyfi lyfsins á gögnum um lyfið DuoTrav. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Voltafenak Rapid, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 50 mg af díklófenak kalíum. Lyfið inniheldur laktósa. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Voltafenak Rapid er ætlað við bráðum verkjum t.d. höfuðverk, þ.m.t. mígrenisköstum, tannverk, vöðva- og liðverkjum sem og bakverk. Einnig er lyfið notað við hita í tengslum við kvef og hósta og tíðaverkjum án vefrænna orsaka. Lyfið er samheitalyf lyfsins Voltaren T sem hefur markaðsleyfi í Svíþjóð. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Til baka Senda grein