Fréttir

Ný lyf á markað 1. október 2019

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. október 2019.

16.10.2019

Ný lyf á markað 1. október 2019

Buvidal, stungulyf, forðalausn. Hver áfyllt sprauta inniheldur 8 mg, 16 mg, 24 mg, 32 mg, 64 mg, 96 mg eða 128 mg af búprenorfíni. Buvidal 8 mg, 16 mg, 24 mg og 32 mg innihalda lítið magn af etanóli, minna en 100 mg í hverjum skammti. Lyfið er ætlað til meðferðar við ópíóíðafíkn, innan ramma læknisfræðilegrar, félagsfræðilegrar og sálfræðilegrar meðferðar. Meðferðin er ætluð fullorðnum og unglingum eldri en 16 ára. Lyfið er blendingslyf (e. hybrid medicine) og er markaðsleyfi þess byggt að hluta á lyfinu Subutex. Lyfið er eftirritunarskylt, lyfseðilsskylt og er sjúkrahúslyf.

Dutaprostam, hörð hylki. Hvert hart hylki inniheldur 0,5 mg dútasteríð og 0,4 mg tamsúlósínhýdróklóríð sem jafngildir 0,367 mg af tamsúlósíni. Dutaprostam inniheldur lesitín úr soja, sem getur innihaldið sojaolíu. Ekki skal nota lyfið ef sjúklingur er með ofnæmi fyrir jarðhnetum eða soja. Lyfið er ætlað til meðferðar sjúklingum sem eru nú þegar að taka dútasteríð og tamsúlósín samhliða í sama skammti, til stjórnunar á miðlungsmiklum eða verulegum einkennum af völdum góðkynja stækkunar á blöðruhálskirtli. Lyfið dregur úr hættu á bráðri þvagteppu og þörf fyrir skurðaðgerð hjá sjúklingum með miðlungsmikil eða veruleg einkenni af völdum góðkynja stækkunar á blöðruhálskirtli. Lyfið er samsett lyf (e. fixed-dose combination) og er lyfseðilsskylt.

Dymista, nefúði, dreifa. Einn úðaskammtur (0,14 g) gefur 137 míkrógrömm af azelastínhýdróklóríði eða 125 míkrógrömm af azelastíni og 50 míkrógrömm af flútíkasonprópíónati. Lyfið inniheldur benzalkónklóríð. Það getur valdið ertingu í nefslímhúð og berkjukrampa. Láta þarf lækni eða lyfjafræðing vita ef sjúklingur finnur fyrir óþægindum við notkun úðans. Dymista er ætlað til notkunar við einkennum miðlungsmikils eða verulegs árstíðabundins eða langvinns ofnæmiskvefs, þegar meðferð með einu lyfi til notkunar í nef, annað hvort andhistamíni eða sykurstera, er ekki talin fullnægjandi. Lyfið er samsett lyf (e. fixed-dose combination) og er lyfseðilsskylt.

Ezetimib/Simvastatin Krka, töflur. Hver tafla inniheldur 10 mg af ezetimibi og 20 mg eða 40 mg af simvastatini. Lyfið er ætlað til fyrirbyggjandi meðferðar við hjarta- og æðasjúkdómum, kólesterólhækkun og arfhreinni ættgengri kólesterólhækkun. Lyfið er samheitalyf lyfsins Inegy og er lyfseðilsskylt.

Febuxostat Medical Valley, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 80 mg af febúxóstati sem hemihýdrat. Lyfið inniheldur laktósa. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Febuxostat Medical Valley er ætlað til meðferðar við langvinnum þvagsýrudreyra þegar úratútfellingar hafa átt sér stað, þar með talið þegar saga liggur fyrir um eða til staðar er þvagsýrugigtarhnútur og/ eða þvagsýrugigt. Lyfið er samheitalyf lyfsins Adenuric og er lyfseðilsskylt.

Influvac Tetra, stungulyf, dreifa í áfylltri sprautu. Lyfið inniheldur óvirkjaða inflúensuveiru yfirborðsmótefnavaka (nevramínidasi og rauðkornakekkir; e.: hemagglutinin) í 0,5 ml skammti af eftirtöldum stofnum:

 

  • A/Brisbane/02/2018 (H1N1)pdm09 líkur stofn 15 míkróg og (A/Brisbane/02/2018, IVR-190) rauðkornakekkir, 
  • A/Kansas/14/2017(H3N2)-líkur stofn 15 míkróg og (A/Kansas//14/2017, NYMC X-327) rauðkornakekkir,
  • B/Colorado/06/2017-líkur stofn 15 míkróg og (B/Maryland/15/2016, NYMC BX69A) rauðkornakekkir og 
  • B/Phuket/3073/2013-líkur stofn 15 míkróg og (B/Phuket/3073/2013, villigerð)

 

Lyfið gæti innihaldið leifar af eggjum (svo sem ovalbúmín, kjúklingaprótein), formaldehýði, cetýlþrímetýl-ammóníumbrómíði, pólýsorbati 80 eða gentamicíni sem notuð eru í framleiðsluferlinu. Ef sjúklingur hefur ofnæmi fyrir einhverjum af þessum efnum má hann ekki nota lyfið. Influvac Tetra er ætlað til forvarnar inflúensusmiti, sérstaklega hjá þeim sem er hætt við fylgikvillum inflúensu. Lyfið er ætlað fullorðnum og börnum frá 3 ára aldri. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er lyfseðilsskylt og er frumlyf.

Penthrox, innöndunargufa, vökvi. Hvert glas inniheldur 3 ml af metoxýflúrani 99,9%. Lyfið inniheldur bútýlhýdroxýtólúen (E321) til þess að auka stöðugleika þess. Bútýlhýdroxýtólúen getur valdið staðbundnum viðbrögðum í húð, t.d. snertihúðbólgu, eða ertingu í augum og slímhúð. Penthrox er ætlað til bráðastillingar miðlungi alvarlegra og alvarlegra verkja hjá fullorðnum sjúklingum með áverka og tengda verki. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf, lyfseðilsskylt og notkun þess bundin við sjúkrahús.

Vinorelbine Alvogen, mjúk hylki. Hvert mjúkt hylki inniheldur vínorelbíntartrat 41,55 mg sem jafngildir 30 mg vínorelbín. Lyfið inniheldur sorbitól sem breytist í frúktósa. Ef sjúklingur er með óþol fyrir ákveðnum sykrum eða hefur fengið greininguna arfgengt frúktósaóþol, sem er mjög sjaldgæfur erfðagalli þar sem sjúklingur getur ekki brotið niður frúktósa, þarf að ræða við lækni áður en lyfið er notað. Vinorelbine Alvogen er ætlað til meðferðar hjá fullorðnum við: lungnakrabbameini, sem ekki er af smáfrumugerð og langt gengnu brjóstakrabbameini, þegar önnur meðferð á ekki við. Lyfið er samheitalyf lyfsins Navelbine og er ávísun lyfsins bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Til baka Senda grein