Fréttir

Ný lyf á markað 1. september 2019

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. september 2019.

25.9.2019

Ný lyf á markað 1. september 2019

Amoxicillin/Clavulanic Acid Normon, stungulyfs-/innrennslisstofn, lausn. Hvert hettuglas inniheldur 1.000 mg af amoxicillíni (sem natríumamoxicillín) og 200 mg af klavúlansýru (sem kalíumklavúlanat). Lyfið er ætlað til meðferðar við ýmsum sýkingum hjá fullorðnum og börnum. Það er einnig ætlað til varnar sýkingum við meiriháttar skurðaðgerðir hjá fullorðnum, svo sem í meltingarvegi, grindarholi, gallrás, höfði og hálsi. Lyfið er lyfseðilsskylt og er samheitalyf lyfsins Augmentine intravenoso.

Esomeprazole Jubilant, magasýruþolnar töflur. Hver tafla inniheldur 20 mg eða 40 mg af esomeprazoli sem (magnesíumsalt). Lyfið inniheldur súkrósa og laktósa. Súkrósi og laktósi eru tegundir sykurs. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er ætlað til notkunar hjá fullorðnum við: bakflæðissjúkdómi í vélinda, í samsetningu með viðeigandi sýklalyfjum til upprætingar á Helicobacter pylorii, hjá sjúklingum sem þurfa samfellda meðferð með bólgueyðandi gigtarlyfjum (NSAID), í framhaldsmeðferð eftir innrennsli í æð sem er ætlað að koma í veg fyrir endurteknar blæðingar úr magasárum, í meðferð við Zollinger Ellison heilkenni. Lyfið er ætlað til notkunar hjá unglingum 12 ára og eldri við: bakflæðissjúkdómi í vélinda og í samsettri meðferð með sýklalyfjum til upprætingar á skeifugarnarsári af völdum Helicobacter pylori. Lyfið er lyfseðilskylt í flestum pakkningum en er fáanlegt í lausasölu í 20 mg 30 stk. pakkningu. Lyfið er samheitalyf lyfsins Nexium.

Metronidazol Normon, innrennslislyf, lausn. Hverjir 100 ml af lausn innihalda 500 mg af metronídazóli. Lyfið inniheldur natríumklóríð. Sjúklingar á saltsnauðu mataræði skulu taka mið af því að þetta lyf inniheldur 362 mg af natríum í 100 ml af lausn og 1.086 mg af natríum í 300 ml lausn. Metronidazol Normon er ætlað til meðferðar við alvarlegum sýkingum af völdum næmra loftfirrðra baktería. Þegar um er að ræða sýkingar af völdum bæði loftháðra og loftfirrðra baktería er hægt að nota það í samsettri meðferð með viðeigandi sýklalyfi sem notað er til að meðhöndla loftháðu sýkinguna. Lyfið er einnig notað fyrirbyggjandi gegn sýkingum eftir aðgerðir, af völdum loftfirrðra baktería, einkum hjá sjúklingum sem gangast undir ristilskurðaðgerð, flokkuð sem menguð eða hugsanlega menguð. Lyfið er lyfseðilsskylt og er samheitalyf lyfsins Flagyl 500 mg solution for infusion.

Quetiapin Medical Valley, forðatöflur. Hver forðatafla inniheldur ýmist 50 mg, 150 mg, 200 mg, 300 mg eða 400 mg af quetiapín (sem quetiapinfúmarat). Lyfið inniheldur laktósa sem er ein tegund sykurs. Ef staðfest hefur verið að sjúklingur sé með óþol fyrir tilteknum sykurtegundum, skal sjúklingur ræða við lækni áður en hann tekur lyfið. Quetiapin Medical Valley er ætlað sem: meðferð við geðklofa, meðferð við geðhvarfasjúkdómi og sem viðbótarmeðferð við alvarlegum geðlægðarlotum hjá sjúklingum með alvarlegt þunglyndi sem hafa ekki svarað þunglyndismeðferð með einu lyfi nógu vel. Lyfið er lyfseðilsskylt og er samheitalyf lyfsins Seroquel Prolong.

Til baka Senda grein