Ný lyf á markað í maí

Ný lyf á markað 1.maí 2020

Ný lyf

Anagrelide AOP, hörð hylki. Hvert hylki inniheldur anagrelíð hýdróklóríð einhýdrat sem jafngildir 0,5 mg af anagrelíði. Lyfið inniheldur laktósa. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Anagrelide AOP er ætlað til að draga úr auknum fjölda blóðflagna og tengdum klínískum einkennum hjá sjúklingum með eðlislæga blóðflagnafjölgun í mikilli áhættu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í blóðsjúkdómum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Thromboreductin sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Arsenic Trioxide Accord, innrennslisþykkni, lausn. Einn ml af innrennslisþykkni inniheldur 1 mg af arsenik þríoxíði. Lyfið er ætlað til innleiðslu- og upprætingarmeðferðar hjá fullorðnum sjúklingum með:

  • Nýlega greint, áhættulítið eða í meðallagi áhættumikið, brátt formerglingshvítblæði (APL), samhliða all-trans-retinoinsýru (ATRA),
  • Bakslag/erfitt brátt formerglingshvítblæði (APL) (fyrri meðferð skal hafa verið með A-vítamíni og krabbameinslyfjameðferð) sem einkennist af t(15;17) genayfirfærslu og/eða formerglingshvítblæðis-/A-vítamín-sýru-viðtaka-alfa-(PML/RAR-alfa)geni.

Lyfið er samheitalyf lyfsins Trisenox. Lyfið er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt.

Berinert, 500 a.e. stungulyfs/innrennslisstofn og leysir, lausn og 1500 a.e. stungulyfsstofn og leysir, lausn. Berinert 500 a.e. inniheldur 500 a.e. af C1-esterasahemli (manna) í hverju hettuglasi á meðan Berinert 1500 a.e. inniheldur 1500 a.e. í hverju hettuglasi. Lyfin innihalda allt að 486 mg af natríum í hverjum 100 ml af lausn. Sjúklingar á natríumskertu fæði þurfa að hafa þetta í huga. Lyfin eru notuð til meðferðar við og fyrirbyggjandi formeðferðar gegn arfgengum ofsabjúg af tegund I og II. Ávísun lyfjanna er bundin við sérfræðinga í ónæmisfræði. Lyfin eru frumlyf og lyfseðilsskyld.

Cyclogest, skeiðarstílar. Hver skeiðarstíll inniheldur 400 mg af prógesteróni. Lyfið er ætlað til stuðnings í gulbúsfasa, sem þáttur í tæknifrjóvgun hjá konum. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í kvensjúkdómum með þekkningu á frjósemisvandamálum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Dutasteride/Tamsulosin Teva, hörð hylki. Hvert hart hylki inniheldur 0,5 mg dútasteríð og 0,4 mg tamsúlósínhýdróklóríð (sem jafngildir 0,367 mg af tamsúlósíni). Lyfið inniheldur natríum og lesitín úr soja, sem getur innihaldið sojaolíu. Sjúklingar með ofnæmi fyrir jarðhnetum eða soja skulu ekki nota lyfið. Lyfið inniheldur minna en 23 mg af natríum í hverju hylki og er sem næst natríumlaust. Auk þess þá inniheldur lyfið 299,46 mg af própýlenglýkólmónókaprýlat, gerð II í hverju hylki og snefil af própýlenglýkóli í svarta blekinu. Lyfið er ætlað til meðferðar við miðlungsmiklum eða verulegum einkennum af völdum góðkynja stækkunar á blöðruhálskirtli. Einnig er lyfið ætlað til að draga úr hættu á bráðri þvagteppu og þörf fyrir skurðaðgerð hjá sjúklingum með miðlungsmikil eða veruleg einkenni af völdum góðkynja stækkunar á blöðruhálskirtli. Lyfið er samheitalyf lyfsins Duodart og er lyfseðilsskylt.

Firazyr, stungulyf, lausn í áfylltri sprautu. Hver áfyllt sprauta með 3 ml inniheldur icatibantasetat sem jafngildir 30 mg af icatibanti. Hver ml af lausn inniheldur 10 mg af icatibanti. Lyfið er ætlað til einkennameðferðar við bráðum köstum arfgengs ofsabjúgs hjá fullorðnum, unglingum og börnum 2 ára og eldri, sem skortir C1-esterasahemil. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í ónæmisfræði. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Imomed, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 7,5 mg af zopikloni. Lyfið inniheldur laktósa og natríum. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa sambandi við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið inniheldur minna en 23 mg af natríumi í hverri töflu og er sem næst natríumlaust. Imomed er ætlað til skammtímameðferðar við svefnleysi hjá fullorðnum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Imovane og er lyfseðilsskylt.

Octreoanne, stungulyfsstofn og leysir, forðadreifa. Eitt hettuglas inniheldur octreotidasetat sem jafngildir 10 mg, 20 mg eða 30 mg af octreotidi. Lyfið er meðal annars ætlað til meðferðar hjá sjúklingum með æsavöxt, hjá sjúklingum með einkenni sem tengjast virkum innkirtlaæxlum í meltingarvegi og brisi og hjá sjúklingum með langt gengin taugainnkirtlaæxli í miðgirni eða af óþekktum uppruna. Lyfið er samheitalyf lyfsins Sandostatin LAR og er lyfseðilsskylt.

Ontruzant, stofn fyrir innrennslisþykkni, lausn. Eitt hettuglas inniheldur 150 mg af trastuzúmabi, mannaaðlöguðu IgG1 einstofna mótefni sem framleitt er í spendýrafrumrækt úr eggjastokkum kínverskra hamstra. Lyfið er ætlað til meðferðar við brjóstakrabbameini með og án meinvarpa, sem og magakrabbameini með meinvörpum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er líftæknilyfshliðstæða lyfsins Herceptin. Ontruzant er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt.

Optovite B12, stungulyf, lausn. Hver lykja af Optovite B12 inniheldur 1.000 míkrógrömm af cýanókóbalamíni. B-12 vítamín er ætlað til gjafar við eftirfarandi skortsástandi: illkynja blóðleysi, þungun, vanfrásogsheilkenni, fituskitu, Chrohns sjúkdómi, illkynja æxli í görnum eða brisi, algert maganám eða að hluta og annað ástand þar sem þörf fyrir vítamínið er markvert aukin. Það er einnig ætlað fyrir grænmetisætur. Notkun lyfsins er einnig ætluð við alkóhólisma og sykursýkisfjöltaugabólgu, þrenndartaugaverk og sársaukafullt vöðvakvik. Virkni B12-vítamíns hefur verið staðfest fyrir alla ofnæmissjúkdóma, sérstaklega langvarandi ofsakláða og flösuþref. Það hefur einnig verið notað við vissum liðbólgum sem hafa ekki svarað hefðbundinni meðferð. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Pemetrexed WH, innrennslisþykkni, lausn. Einn ml af þykkni inniheldur 25 mg pemetrexed sem pemetrexedtvíargínín. Lyfið inniheldur sem samsvarar 35 mg/ml af própýlenglýkóli sem hjálparefni með þekkta verkun. Lyfið er meðal annars ætlað til notkunar við illkynja miðþekjuæxli í brjósthimnu (e. mesothelioma) og lungnakrabbameini sem ekki er af smáfrumugerð (e. Non-small cell lung cancer). Lyfið er blendingslyf og er markaðsleyfi þess byggt að hluta á lyfinu Alimta. Pemetrexed WH er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt.

Rixathon, innrennslisþykkni, lausn. Hvert 10 ml hettuglas inniheldur 100 mg af rítúxímab og hvert 50 ml hettuglas inniheldur 500 mg af rítúxímab. Rítúxímab er einstofna músa/manna mótefni og er framleitt í spendýrafrumurækt úr eggjastokkum kínverskra hamstra. Rixathon inniheldur um 5,26 mg af natríum í hverjum ml af innrennslisþykkni. Það þarf að hafa í huga fyrir sjúklinga á natríumskertu fæði. Lyfið er ætlað til meðferðar fullorðinna einstaklinga við eitilfrumukrabbameini sem er ekki af Hodgkins gerð, við langvinnu eitilfrumuhvítblæði, iktsýki, langvinnri blöðrusótt, hnúðaæðabólgu og smásærri fjölæðabólgu. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er líftæknilyfshliðstæða lyfsins Mabthera og er sjúkrahúslyf og lyfseðilsskylt.

Nýtt lyfjaform

Fasenra, stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna. Hver áfylltur lyfjapenni inniheldur 30 mg benralizumab í 1 ml. Benralizumab er einstofna mótefni aðlagað mönnum, framleitt í eggjastokkafrumum kínverskra hamstra með raðbrigðaerfðatækni. Lyfið er ætlað sem viðbótarviðhaldsmeðferð hjá fullorðnum sjúklingum með alvarlegan rauðkyrningaastma sem ekki hefur náðst nægjanleg stjórn á þrátt fyrir háskammtameðferð með barksterum til innöndunar ásamt langverkandi beta-örvum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt. Lyfið er frumlyf.

Ný dýralyf

Eravac, stungulyf, fleyti fyrir kanínur. Hver 0,5 ml skammtur inniheldur óvirkjaða lifrardrepsveiru af tegund 2. Lyfið er ætlað til virkrar ónæmingar hjá kanínum frá 30 daga aldri til þess að draga úr dánartíðni af völdum lifrardrepsveiru af tegund 2. Ónæmis myndast eftir 1 viku og hefur verið sýnt fram að ónæmið endist í 12 mánuði með reynsluprófun. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 18. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat