Breyting sem varðar umboð vegna afhendingar lyfja er í samráðsgátt

Meginbreytingu reglugerðar er ætlað að koma í veg fyrir vandkvæði sem fylgt geta kröfu um umboð vegna afhendingar lyfja til þriðja aðila

Heilbrigðisráðuneytið hefur kynnt til umsagnar drög að breytingu á reglugerð um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja, sem birt hafa verið í Samráðsgátt stjórnvalda. Þar er m.a. kveðið á um skýrari reglur um umboð vegna afhendingar lyfja til þriðja aðila. Umsagnarfrestur um drögin er til og með 31. júní næstkomandi og eru umsagnir birtar jafnóðum og þær berast.

Vandkvæði hafa komið upp vegna kröfu um umboð

Á liðnu ári tók gildi breytt fyrirkomulag við afhendingu lyfja í apótekum með reglugerð nr. 740/2020, þar sem í fyrsta sinn var kveðið á um skyldu þess að vera með annað hvort skriflegt eða rafrænt umboð þegar lyf eru afhent þriðja aðila. Í kjölfar breytingarinnar komu upp vandkvæði þar sem dæmi voru um að aðstandendur langveikra og fatlaðra einstaklinga sem ekki voru færir um að veita slíkt umboð áttu í erfiðleikum með að fá lyf þeirra afhent. Til að bregðast við þessu hófu embætti landlæknis, Lyfjastofnun og heilbrigðisráðuneytið sameiginlega vinnu við að skýra ákvæði gildandi reglugerðar hvað þetta varðar og hafa drög að þeim breytingum nú verið birt í Samráðsgátt.

Upplýsingaumboð til þeirra sem þess þurfa

Meginbreytingin felst í því að skilgreint er svokallað upplýsingaumboð sem ætlað er að sé veitt í þeim tilvikum þegar einstaklingur getur hvorki nálgast lyfin sín sjálfur né veitt öðrum umboð til þess. Slíkt umboð skal veitt af sérfræðilæknum, og embætti landlæknis sér til þess að umboðið birtist í lyfjaávísunargátt. Embættið skal jafnframt birta leiðbeiningar fyrir sérfræðilækna um skilyrði fyrir útgáfu upplýsingaumboða. Þær skulu kveða nánar á um skilyrði þess að veita slík umboð, hvaða aðstandendur skuli fá slíka heimild og hver gildistíminn skuli vera. Þá er einnig tryggt að umboðshafi fái nauðsynlegan aðgang að upplýsingum um lyfjaávísanir viðkomandi sem geri honum kleift að ganga erinda hans.

Skýr rammi um aðgengi að upplýsingum

Í reglugerðardrögunum er enn fremur settur skýrari rammi um aðgang að upplýsingum úr lyfjagagnagrunni, og kveðið á um að skráning umboða skuli vera miðlæg í gagnagrunni embættis landlæknis. Jafnframt er 14. gr. reglugerðarinnar uppfærð í samræmivið ný lyfjalög nr. 100/2020.

Síðast uppfært: 3. júní 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat