Lyf í farangri eða póst- og vörusendingum

Lyf einstaklinga í farangri eða póst- og vörusendingum kallast innflutningur einstaklinga á lyfjum. Mismunandi reglur gilda um póst-og vörusendingar lyfja eftir því hvaða flokki lyfin tilheyra og hvaðan þau koma.

Um innflutning einstaklinga á lyfjum fer eftir reglugerð nr. 1277/2022  og auk þess, eftir því sem við á, reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.

Reglurnar fara eftir því frá hvaða landi lyfið er að koma, þ.e. hvort lyfið er að koma frá landi innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), hvort lyfið er í farangri eða kemur í pósti eða vörusendingu. Einnig skiptir máli hvaða flokki lyfin tilheyra. Um er að ræða þrjá flokka:

  1. Almenn lyf – Þetta eru lyf sem ekki eru ávana- og fíknilyf eða lyf sem eru á WADA lista, en eru ávísanaskyld, þ.e. lyfseðil þarf frá lækni til að kaupa þau skv. íslenskum reglum. Að auki teljast lyf sem seld eru í lausasölu til almennra lyfja.
  2. Ávana og fíknilyf – Lyf sem innihalda að hluta til efni sem tilgreind eru í fylgiskjali 1 við reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.
  3. Lyf á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar, (e. World Anti-Doping Agency, WADA), svokölluðum WADA lista – Lyf sem innihalda efni sem finna má í köflum S1 (vefjaaukandi efni/sterar) og S2 (peptíð hormón, vaxtarþættir og skyld efni) eru á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA; World Anti-Doping Agency).

Almennt gildir að heimilt er að flytja til landsins lyf til eigin nota, þó með ákveðnum takmörkunum, og þá og því aðeins að um sé að ræða lyf.

Hvaða lyf má hafa með í farangri til Íslands?

1. Almenn lyf

Almenn lyf eru þau kölluð sem ýmist eru seld í lausasölu eða eru ávísanaskyld, þ.e., lyfseðil frá lækni þarf til að kaupa slík lyf skv. íslenskum reglum. Ávana- og fíknilyf eða lyf sem eru á WADA lista heyra ekki hér undir.

Almenn lyf í farangri frá landi innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Einstaklingar mega hafa í farangri sínum við komu til landsins, lyf til eigin nota í magni sem svarar til árs notkunar samkvæmt notkunarfyrirmælum læknis eða samkvæmt ráðlögðum skammti í fylgiseðli lyfs. Fylgiseðillinn fylgir í pakkningu lyfsins en hann má einnig nálgast á vefnum lyf.is með því að fletta upp nafni viðkomandi lyfs.

Almenn lyf í farangri frá landi utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Ef einstaklingur er að koma frá ríki utan EES er heimilt að hafa meðferðis 100 daga skammt, samkvæmt notkunarfyrirmælum læknis eða samkvæmt ráðlögðum skammti í fylgiseðli lyfs, sjá serlyfjaskra.is.

Gögn sem þarf að framvísa

Mikilvægt er að hafa eitthvert af eftirtöldum gögnum meðferðis þegar ferðast er, og skylt er að framvísa þeim til tollayfirvalda (ef óskað er), til að sýna fram á að lyfin séu flutt inn með lögmætum hætti:

Til dæmis læknabréf. Þar sem fram kemur fullt nafn lyfjanotanda, lyfjaheiti, og fyrirmæli um notkun, t.d. ein tafla daglega.

Lyfseðill með nafni lyfjanotanda, lyfjaheiti og fyrirmæli um notkun.

Miði sem apótek límir á pakkningu lyfsins sem færir fullnægjandi sönnun fyrir því að ávísunarskyldra lyfja hafi verð aflað með lögmætum hætti og að lyfin séu lyfjanotandanum nauðsynleg í því magni sem tilgreint er.

2. Ávana og fíknilyf

Ávana og fíknilyf í farangri frá landi innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES)

Reglurnar fara eftir því hvort einstaklingur er með skráð lögheimili á Íslandi eða ekki:

a. Einstaklingur með skráð lögheimili á Íslandi:

  • Ef lyfjanna er upphaflega aflað á Íslandi, er einstaklingi heimilt við komuna til landsins að hafa meðferðis ávana- og fíknilyf sem samsvara 30 daga skammti. Skylt er að framvísa gögnum sem sýna fram á að lyfjanna hafi verið aflað hér á landi.
  • Ef lyfjanna hefur verið aflað erlendis, er heimilt að koma með til landsins ávana- og fíknilyf í magni sem samsvarar 7 daga skammti. 30 daga skammt samkvæmt skilgreindum dagskammti (e. Defined daily dose (DDD) má koma með ef viðkomandi hefur í fórum sínum yfirlýsingu, (læknabréf eða lyfseðil) frá lækni með gilt lækningaleyfi á Íslandi, sem segir til um að viðkomandi séu lyfin nauðsynleg í læknisfræðilegum skilningi.

b. Hafi einstaklingur ekki skráð lögheimil hér á landi gildir eftirfarandi:

  • Heimilt er við komuna til landsins að hafa meðferðis ávana- og fíknilyf í magni sem samsvarar 30 daga skammti samkvæmt skilgreindum dagskammti (e. Defined daily dose (DDD).

Ávana og fíknilyf í farangri frá landi utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES)

Heimilt er við komuna til landsins að hafa meðferðis ávana- og fíknilyf í magni sem samsvarar 30 daga skammti samkvæmt skilgreindum dagskammti (e. Defined daily dose (DDD).

Gögn sem þarf að framvísa

Mikilvægt er að hafa eitthvert af eftirtöldum gögnum meðferðis sem segja til um að viðkomandi einstaklingi séu lyfin nauðsynleg í læknisfræðilegum skilningi. Skylt er að framvísa þeim til tollayfirvalda (ef óskað er), til að sýna fram á að lyfin séu flutt inn með lögmætum hætti:

Til dæmis læknabréf. Þar sem fram kemur fullt nafn lyfjanotanda, lyfjaheiti, og fyrirmæli um notkun, t.d. ein tafla daglega.

Lyfseðill með nafni lyfjanotanda, lyfjaheiti og fyrirmæli um notkun.

Miði sem apótek límir á pakkningu lyfsins sem færir fullnægjandi sönnun fyrir því að ávísunarskyldra lyfja hafi verð aflað með lögmætum hætti og að lyfin séu lyfjanotandanum nauðsynleg í því magni sem tilgreint er.

3. Lyf á bannlista WADA

Þetta eru lyf á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar, (e. World Anti-Doping Agency, WADA), svokölluðum WADA lista. Lyf sem innihalda efni sem finna má í köflum S1 (vefjaaukandi efni/sterar) og S2 (peptíð hormón, vaxtarþættir og skyld efni) eru á bannlista WADA.

Einstaklingi er einungis heimilt að flytja til landsins í farangri til eigin nota magni sem svarar til 30 daga notkunar samkvæmt notkunarfyrirmælum læknis eða samkvæmt notkunarleiðbeiningum markaðsleyfishafa/framleiðanda lyfs.

Gögn sem þarf að framvísa

Mikilvægt er að hafa eitthvert af eftirtöldum gögnum meðferðis sem segja til um að viðkomandi einstaklingi séu meðfylgjandi lyf af WADA listanum nauðsynleg í læknisfræðilegum skilningi. Skylt er að framvísa gögnum til tollayfirvalda (ef óskað), til að sýna fram á lögmæti innflutnings lyfjanna sem viðkomandi flytur til landsins:

Til dæmis læknabréf. Þar sem fram kemur fullt nafn lyfjanotanda, lyfjaheiti, og fyrirmæli um notkun, t.d. ein tafla daglega.

Lyfseðill með nafni lyfjanotanda, lyfjaheiti og fyrirmæli um notkun.

Miði sem apótek límir á pakkningu lyfsins sem færir fullnægjandi sönnun fyrir því að ávísunarskyldra lyfja hafi verð aflað með lögmætum hætti og að lyfin séu lyfjanotandanum nauðsynleg í því magni sem tilgreint er.

Má panta lyf frá útlöndum og láta senda sér?

1. Almenn lyf

Almenn lyf send í pósti eða með vörusendingu til Íslands frá landi innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Einstaklingi er heimilt að flytja til landsins með póst- eða vörusendingu lyf til eigin nota í magni sem svarar til 100 daga notkunar samkvæmt notkunarleiðbeiningum læknis eða samkvæmt skömmtunarleiðbeiningum í fylgiseðli lyfs. Fylgiseðillinn fylgir í pakkningu lyfsins en hann má einnig nálgast á vefnum lyf.is með því að fletta upp nafni viðkomandi lyfs.

Einstaklingar mega kaupa almenn lyf á netinu og fá þau send til Íslands með póst- eða vörusendingu. Lögmætir aðilar sem hafa heimild til lyfsölu á netinu hafa sameiginlegt kennimerki, eins og sést á myndinni hér að neðan. Ef smellt er á merkið ætti að opnast listi á vef lyfjastofnunar í viðkomandi landi, yfir þau apótek þarlendis sem hafa heimild til að bjóða upp á netsölu lyfja. Merkið sem var hannað að tilstuðlan Evrópusambandins, tryggir að verið sé að versla við lögmæta aðila. Tilgangur þess er að aðstoða neytendur við að beina viðskiptum sínum til lögmætra verslana með lyf, öryggisins vegna. Sameiginlega kennimerkinu er þannig m.a. ætlað að fyrirbyggja að ólögleg og fölsuð lyf, sem eru ógn við heilsu fólks, fari í dreifingu. Merkið er eingöngu að finna á vefsíðum þeirra netapóteka sem eru lögmætir aðilar og öruggt er að kaupa lyf hjá. Á vef EMA má finna lista yfir tengla hjá lyfjastofnunum EES ríkjanna, þar sem vísað er á lögmæt netapótek í viðkomandi landi.

Gögn sem þarf að framvísa

Mikilvægt er að hafa eitthvert af eftirtöldum gögnum meðferðis í póst- eða vörusendingunni. Skylt er að framvísa þeim til tollayfirvalda (ef óskað er), til að sýna fram á lögmæti innflutnings lyfjanna sem viðkomandi flytur til landsins:

Til dæmis læknabréf. Þar sem fram kemur fullt nafn lyfjanotanda, lyfjaheiti, og fyrirmæli um notkun, t.d. ein tafla daglega.

Lyfseðill með nafni lyfjanotanda, lyfjaheiti og fyrirmæli um notkun.

Miði sem apótek límir á pakkningu lyfsins sem færir fullnægjandi sönnun fyrir því að ávísunarskyldra lyfja hafi verð aflað með lögmætum hætti og að lyfin séu lyfjanotandanum nauðsynleg í því magni sem tilgreint er.

Almenn lyf send í pósti eða með vörusendingu til Íslands frá landi utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Óheimilt er að flytja til landsins lyf utan EES með póst eða vörusendingu.

2. Ávana og fíknilyf

Óheimilt er að flytja inn ávana- eða fíknilyf með póst- eða vörusendingu til Íslands.

3. Lyf á bannlista WADA

Óheimilt er að flytja inn með póst- eða vörusendingu lyf sem er að finna á bannlista WADA.

Er hægt að fá undanþágu frá reglum um innflutning einstaklinga?

Lyfjastofnun er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum þeirra reglugerða sem tilgreindar eru hér að ofan, þegar hægt er að sýna fram á, að takmarkanir á heimild til innflutnings lyfja til eigin nota, stofni heilsu eða lífi einstaklings í hættu.

Ávana- og fíknilyf - Lyfjastofnun þarf að samþykkja undanþágu áður en komið er með lyfið til landsins.

Almenn lyf - sækja skal um undanþágu í síðasta lagi tveimur vikum eftir að lyfið kemur til landsins.

Umsóknarferlið

Hægt er að sækja um undanþágu með tvennum hætti, eftir því hvort einstaklingurinn er með rafræn skilríki eða ekki:

  1. Með rafrænum skilríkjum – sótt er um á Mínum síðum Lyfjastofnunar. Þar er valið „Skrá umsókn“ - „Einstaklingar“ - „Umsókn um undanþágu frá reglugerð um innflutning einstaklinga á lyfjum“.
  2. Ekki með rafræn skilríki – sótt er um með tölvupósti á netfangið [email protected]. Efnislína erindisins skal vera „Umsókn um undanþágu frá reglugerð um innflutning einstaklinga á lyfjum

Gögn og upplýsingar sem þurfa að koma fram í umsóknum eru eftirfarandi:

Í pósti eða farangri?

Frá hvaða landi kemur sendingin eða farþeginn?

  • Lyfjaheiti
  • Lyfjaform
  • Styrkur lyfs
  • Dagskammtur
  • Innflutt magn

Ef við á

Sendingarnúmer sem flutningsaðili útvegar

  • Vottorð frá lækni, sem segir til um að lífi og/eða heilsu einstaklings sé ógnað verði undanþága ekki veitt. Auk þess afrit af lyfseðli fyrir hvert lyf.
  • Kvittun/reikningur fyrir lyfinu
  • Annað sem umsækjandi vill koma á framfæri

Hvað með CBD eða THC?

Cannabidiol (CBD)

Ekki er fjallað um CBD í reglugerð um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni. Efnið er því ekki bannað á íslensku yfirráðasvæði. Vegna lyfjavirkni CBD kann þó að vera að vörur sem innihalda CBD séu óheimilar, leyfisskyldar eða að um þær gildi einhverjar aðrar sérstakar kröfur. 

Fæðubótarefni sem innihalda CBD heyra undir Matvælastofnun. Snyrtivörur sem innihalda CBD heyra undir Umhverfisstofnun.

Tetrahydrocannabinol (THC)

Samkvæmt reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni er THC bannað á íslensku yfirráðasvæði, nema skv. undanþáguheimild í reglugerðinni, s.s. í tilfellum skráðra lyfja, t.d. Epidyolex og Sativex.

Samkvæmt reglugerðinni kemur magn THC því ekki til álita þegar litið er til þess hvort efnið falli undir gildissvið reglugerðarinnar. Af því leiðir, að innihaldi vara snefilmagn af THC, telst hún innihalda efni sem bannað er á íslensku yfirráðasvæði. 

Schengen vottorð dugar ekki til að heimila innflutning einstaklinga á efnum sem eru bönnuð á íslensku yfirráðasvæði.

Því er læknisfræðilegt marijúana ekki löglegt á Íslandi.

Gilda ákveðnar reglur þegar ferðast er með lyf til útlanda?

Hvaða reglur gilda þegar ferðast er með lyf frá Íslandi til annarra landa? 

Mismunandi reglur gilda fyrir hvert og eitt land. Lyfjastofnun bendir viðkomandi á að hafa samband við sendiráð Íslands í viðkomandi landi og fá þar nánari upplýsingar.

Þegar ferðast er til annarra landa er æskilegt að geyma öll lyf í handfarangri. Geymið þau helst í upprunalegri pakkningu, þannig að ef til eftirlitsskoðunar á ferðalaginu kemur er auðveldara að gera grein fyrir því um hvaða lyf ræðir. 

Lyf í fljótandi formi (t.d. krem, mixtúrur og innúðalyf) eru undanþegin takmörkunum um magn vökva sem farþegar mega ferðast með í handfarangri. Þau þurfa ekki að rúmast innan glæra pokans með öðrum vörum í fljótandi formi en það gæti þurft að gera grein fyrir þeim vegna eftirlits. 

Ekki er hægt að reikna með því að íslenskir lyfseðlar gildi í öðrum löndum. Erlend apótek hafa ekki aðgang að rafrænum lyfjaávísunum lækna á Íslandi. 

Sjá einnig: Kaup í netapóteki


Síðast uppfært: 19. nóvember 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat