Upplýsingar um aukaverkanir bóluefna gegn COVID-19

Aukaverkanir eru óæskileg áhrif lyfs eða bóluefnis. Öll bóluefni geta valdið aukaverkunum en alvarlegar aukaverkanir eru sjaldgæfar. Ef spurningar vakna eru einstaklingar hvattir til að ráðfæra sig við heilbrigðisstarfsmann.

Fyrstu 1-2 dagana eftir bólusetningu má búast við vægum, skammvinnum aukaverkunum sem yfirleitt eru með öllu skaðlausar. Þetta geta t.d. verið óþægindi á stungustað, þreyta, höfuðverkur, verkir í vöðvum og liðum, kuldahrollur, hiti og ógleði. Þetta eru merki um að líkaminn sé að mynda ónæmissvar og að bóluefnið hafi tilætluð áhrif. Ekki þarf að hafa samband við lækni ef þessi einkenni koma fram.

Upplýsingar um þekktar aukaverkanir má finna í fylgiseðli hvers bóluefnis í sérlyfjaskrá.

Ef spurningar vakna eru bólusettir einstaklingar hvattir til að ráðfæra sig við heilbrigðisstarfsmann.

Ef  fram koma alvarleg einkenni eftir bólusetninguna, ætti að hafa samband við lækni.  Þetta gætu t.d. verið  alvarleg ofnæmisviðbrögð eins og öndunarerfiðleikar. Læknirinn getur metið hvort einkennin séu  vegna bóluefnisins.  Einnig er rétt að hafa samband við lækni ef vafi  leikur á hvort um aukaverkun eftir bólusetninguna er að ræða.

Eins og gildir um önnur ný lyf á markaði er mikilvægt að fylgjast með aukaverkunum af völdum bóluefna gegn COVID-19.

Tilkynningar, bæði frá þeim sem hafa fengið bólusetningu sem og heilbrigðisstarfsfólki, eru mikilvægar. Fólk er sérstaklega hvatt til að tilkynna grun um nýjar, óvæntar og alvarlegar aukaverkanir.

Allir geta tilkynnt aukaverkun lyfja (þ.m.t. bóluefna). Aðstandendur og starfsfólk, t.d. á dvalarheimilum, geta einnig tilkynnt um aukaverkun fyrir skjólstæðinga. Lögð er sérstök áhersla á að tilkynntar séu nýjar aukaverkanir (aukaverkanir sem ekki eru þekktar og er þar af leiðandi ekki getið í fylgiseðlinum), og alvarlegar aukaverkanir (aukaverkanir sem t.d.  kalla á  innlögn á sjúkrahús).

Ef heilbrigðisstarfsmaður hefur grun um alvarlega, nýja eða óvænta aukaverkun af notkun lyfs í störfum sínum er honum skylt að tilkynna það til Lyfjastofnunar.

Tilkynna aukaverkun

Lyfjastofnun ber skylda til að halda gagnagrunn yfir aukaverkanir sem tilkynntar eru til stofnunarinnar. Tilkynningarnar eru sendar inn í Eudravigilance (EV), aukaverkanagrunn Lyfjastofnunar Evrópu, án persónugreinanlegra upplýsinga. Þetta stuðlar að því að bæta eftirfylgni með lyfjum (þ.m.t. bóluefnum) svo að bregðast megi skjótt við ef nýjar eða alvarlegar aukaverkanir koma fram eftir að notkun á lyfi eða bóluefni hefst.

Lyfjastofnun setur vinnslu aukaverkanatilkynninga vegna COVID-19 bóluefna og lyfja sem notuð eru við COVID-19 í forgang. Tímamörk  vegna vinnslu þessara aukaverkantilkynninga eru þau sömu og fyrir alvarlegar tilkynningar en þær eru sendar í samevrópska gagnagrunninn innan 15 daga frá móttöku.

Alla virka daga birtir Lyfjastofnun tölur yfir tilkynntar aukaverkanir af bóluefnum gegn COVID-19, bæði vegna gruns um alvarlegar og ekki alvarlegar aukaverkanir.

Lyfjastofnun áréttar að stofnunin getur ekki fjallað um einstaka tilvik vegna þeirra laga sem gilda um persónuvernd.

Mikilvægt er að hafa hugfast að fjöldi tilkynninga vegna gruns um aukaverkun eftir bólusetningu segir ekki til um tíðni aukaverkana eða öryggi bóluefnanna, en tilkynningarnar eru afar mikilvægur þáttur í að fylgjast með og geta metið öryggi bóluefnnana eftir að notkun þeirra hefst.

Upplýsingar um fjölda bólusettra með hverju bóluefni fyrir sig má finna á covid.is.

Upplýsingar um tilkynntar aukaverkanir á Norðurlöndum

Danmörk - upplýsingar á vef Lægemiddelstyrelsen

Finnland - upplýsingar á vef FIMEA

Noregur - upplýsingar á vef Statens legemiddelverk

Svíþjóð - upplýsingar á vef Läkemedelsverket

Síðast uppfært: 3. febrúar 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat