Markmið og umfang
Markmið jafnréttisáætlunar Lyfjastofnunar er að stuðla að jöfnum rétti og jafnri stöðu kynjanna skv. ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Jafnframt er markmið með áætluninni að Lyfjastofnun sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem starfsfólk, óháð kynferði, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðernisuppruna, kynþætti, litarhætti, efnahagi, ætterni og stöðu að öðru leyti, fær sömu tækifæri til að nýta hæfileika sína og samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
Jafnréttisáætlunin skilgreinir markmið stofnunarinnar á sviði jafnréttismála og greinir frá aðgerðum til að ná markmiðum, ábyrgð þeirra og tímaramma.
Almenn ákvæði um launajafnrétti
(6.gr. laga nr. 150/2020)
„Konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir fólk af ólíkum kynjum. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun eða annars konar mismunun. Starfsfólki skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þau kjósa svo.“
Markmið: Konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá hljóti jöfn laun og njóti sömu kjara við sömu eða jafnverðmæt störf.
Mælieining: Kynbundinn launamunur (%); Skýringarhlutfall R2 (0-1)
Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Framkvæma mánaðarlega launagreiningu samkvæmt jafnlaunastjórnunarkerfi Lyfjastofnunar. | Mannauðsstjóri og launafulltrúi | Mánaðarlega |
Skrá frávik og leiðrétta laun ef fram kemur óútskýranlegur munur á launum kynjanna. | Launaráð | Mánaðarlega |
Birta niðurstöður launagreiningar sem einn af lykilmælikvörðum stofnunar. | Mannauðsstjóri | Mánaðarlega |
Hafa árlegan fund með starfsfólki Lyfjastofnunar þar sem niðurstöður launagreininga eru kynntar nánar. | Forstjóri og mannauðsstjóri | Árlega - Í kjölfar úttektar vottunaraðila |
Rýna launastefnu og jafnlaunastefnu Lyfjastofnunar árlega og uppfæra ef þörf er á. | Jafnlaunahópur | Árlega |
Jafnlaunavottun
(7.gr. laga nr. 150/2020)
Lyfjastofnun hlaut Jafnlaunavottun frá Vottun hf. 24.janúar 2020.
Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun
(12.gr. laga nr. 150/2020)
„Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf.“
Markmið: Laus störf standa opin fólki af öllum kynjum.
Mælieining: Kynjahlutfall umsækjenda (%)
Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Tryggja að auglýst störf séu orðuð með kynlausum hætti og hvetja öll kyn til að sækja um laus störf. | Mannauðsstjóri | Hvert auglýst starf |
Greina kynjahlutfall umsækjenda fyrir auglýst störf. | Mannauðsstjóri | Hvert auglýst starf |
Meta hæfni umsækjenda eftir fyrirfram skilgreindu ókynbundnu hæfnismati. | Sviðsstjórar og mannauðsstjóri | Hvert auglýst starf |
Markmið: Jafnt kynjahlutfallið í starfsmannahópnum.
Mælieining: Kynjahlutfall starfsmanna (%)
Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Ráða umsækjandi af því kyni sem hallar mest á ef tveir eða fleiri umsækjendur eru taldir jafn hæfir samkvæmt hæfnismati. | Sviðsstjórar | Hvert auglýst starf |
Markmið: Starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun er aðgengileg öllum kynjum.
Mælieining: Tími varinn í endurmenntun og starfsþjálfun (klst).
Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Framkvæma greiningu á sókn kynjanna í sambærilegum störfum í endurmenntun og starfsþjálfun. | Launafulltrúi | Árlega |
Leita skýringa komi fram kynbundinn munur á sókn starfsfólks í endurmenntun og starfsþjálfun. | Mannauðsstjóri | Árlega |
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
(13.gr. laga nr. 150/2020)
„Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu, óháð kyni. Ráðstafanir þær skulu meðal annars miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsfólks og þarfa atvinnulífs, þar með talið að starfsfólki sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna brýnna fjölskylduaðstæðna.“
Starfsfólki Lyfjastofnunar, óháð kyni, skal gert kleift, sem frekast er unnt, að samræma fjölskyldulíf sitt og atvinnu. Til þess að svo megi verða geta einstaklingar sem starfa hjá stofnuninni óskað eftir því að vinnutími verði aðlagaður að þörfum þeirra. Slíkar beiðnir eru metnar hverju sinni með tilliti til viðkomandi starfs og þarfa stofnunarinnar.
Markmið: Vera fjölskylduvænn vinnustaður.
Mælieining: Ánægja með sveigjanleika í vinnu (1-5).
Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Kynna fyrir starfsfólki þær reglur sem gilda um sveigjanlegan vinnutíma og heimavinnu sem stendur til boða sbr. gæðaskjali. | Mannauðsstjóri | Árlega og sem hluta af nýliðaakynningu |
Kynna fyrir verðandi foreldrum, réttindi og skyldur sem það hefur gagnvart vinnustaðnum vegna fæðingar- og foreldraorlofs auk réttinda vegna veikinda barna. | Sviðsstjóri | Þegar við á |
Rýna reglur um viðveru starfsfólks árlega og uppfæra ef breytingar verða. | Framkvæmdaráð | Árlega |
Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni
(14.gr. laga nr. 150/2020)
„Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum. Ef yfirmaður er kærður vegna ætlaðs kynbundins ofbeldis, ætlaðrar kynbundinnar áreitni eða ætlaðrar kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir og skal þá næsti yfirmaður taka slíkar ákvarðanir.“
Með kynbundnu ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.
Með kynbundinni áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Með kynferðislegri áreitni er átt við hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Markmið: Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðin á vinnustaðnum.
Mælieining: Fjöldi tilkynntra atvika.
Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Fræða starfsfólk um einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni (EKKÓ) og greina frá því að slíkt sé ekki liðið á vinnustaðnum. | Mannauðsstjóri | Árlega |
Kynna starfsfólki fyrir viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynbundins ofbeldis, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni (EKKÓ). | Mannauðsstjóri | Árlega og sem hluta af nýliðakynningu |
Rýna viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynbundins ofbeldis, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni (EKKÓ) og uppfæra ef þörf er á. | Framkvæmdaráð | Árlega |
Gildistími og endurskoðun
Samþykkt af Jafnréttisstofu 05.11.2024 – gildir í 3 ár frá samþykki.