Jafnréttisáætlun

Markmið laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum, og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Með hliðsjón af markmiði laganna og að teknu tilliti til 65. gr. stjórnarskrárinnar hefur Lyfjastofnun sett sér jafnréttisáætlun

Ábyrgð

Forstjóri Lyfjastofnunar ber ábyrgð á að jafnréttisáætlun stofnunarinnar sé fylgt eftir og haldið við. Sviðsstjórar og deildarstjórar annast eftirlit með að áætluninni sé framfylgt, hver á sínu sviði.

Jafnréttisáætlun skal endurskoða á þriggja ára fresti.

Launajafnrétti

Markmið: Fólki af öllum kynjum sem starfar hjá Lyfjastofnun skulu greidd sömu laun og það skal njóta sömu kjara, fyrir sömu eða jafnverðmæt eða sambærileg störf. Þannig skulu laun ákveðin á sama hátt fyrir öll og viðmiðin sem lögð eru til grundvallar við launaákvörðun skulu vera hin sömu.


Aðgerðaráætlun: Í þessu skyni skal stofnunin notast við kynhlutlaus viðmið um frammistöðu í starfi. Með kjörum í þessu sambandi er auk launakjara, átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin eru til fjár.


Mat og eftirfylgni: Árlega skal farið yfir laun allra sem starfa hjá Lyfjastofnun með tilliti til launajafnréttis. Komi í ljós við árlega yfirferð að fólki af öllum kynjum séu ekki greidd sömu eða sambærileg laun fyrir sömu eða sambærileg störf, skal það leiðrétt.

Auglýsingar um laus störf

Markmið: Laus störf innan Lyfjastofnunar skulu standa opin fólki af öllum kynjum. Orða skal allar starfsauglýsingar á vegum Lyfjastofnunar með þeim hætti að öll kyn séu höfð í huga við gerð þeirra.

Aðgerðaráætlun: Þegar unnið er að gerð auglýsinga um laus störf hjá Lyfjastofnun skulu störf alltaf vera ókyngreind. Jafnframt skal alltaf tilgreint að fólk af öllum kynjum sé hvatt til að sækja um viðkomandi starf.

Mat og eftirfylgni: Árlega skal yfirfara þær auglýsingar sem birtar hafa verið á vegum Lyfjastofnunar til að kanna hvort staðið hafi verið við framangreind markmið.

Ráðningar í störf

Markmið: Við ráðningu í störf hjá stofnuninni skal ætíð leggja áherslu á að ráða hæfasta umsækjandann í starfið, óháð kyni. Í því sambandi skal líta til málefnalegra sjónarmiða svo sem færni, menntunar, reynslu og hæfni til mannlegra samskipta. Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns á við önnur sjónarmið.


Aðgerðaráætlun: Lyfjastofnun stefnir að því að hafa sem jafnast hlutfall kynjanna í hinum ýmsu störfum á öllum sviðum stofnunarinnar. Við ráðningu nýs starfsfólks þar sem val stendur á milli tveggja jafnhæfra umsækjenda, skal haft í huga að jafna hlutfall kynjanna hjá stofnuninni.


Konur hafa frá upphafi verið í meirihluta sem starfsfólk Lyfjastofnunar. Til að jafna kynjahlutfall þeirra sem starfa hjá stofnuninni hefur undanfarin ár verið hugað að því að fjölga fólki af öðrum kynjum við nýráðningar.


Mat og eftirfylgni: Árlega skal farið yfir ráðningar nýs starfsfólks með tilliti til framangreinds og kannað annars vegar hvort markmið um að hafa sem jafnast hlutfall kynjanna að störfum hafi gengið eftir sem og hvort jöfn staða allra kynja sé höfð í huga við nýráðningar.

Samskipti innan stofnunarinnar

Markmið: Í daglegum störfum innan stofnunarinnar er óheimilt að mismuna einstaklingum vegna kynferðis, aldurs, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Starfsmenn skulu hafa jafna möguleika til að nýta hæfileika sína og þekkingu á sem bestan hátt.


Við úthlutun verkefna meðal starfsfólks stofnunarinnar, tilfærslu og framgöngu í starfi, skal þess gætt að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis. Þá skal fólk af öllum kynjum sem starfar hjá stofnuninni hafa jafna möguleika til að axla ábyrgð í starfi.


Starfsfólk skal haga tali sínu og athöfnum þannig að það sé engu kyni til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt, sbr. gæðaskjal um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi.


Aðgerðaráætlun: Á degi hverjum skulu forstjóri, sviðsstjórar, deildarstjórar og teymisstjórar vera fyrirmynd annarra starfsmanna um góð samskipti innan stofnunarinnar.


Yfirmenn skulu taka alvarlega allar ábendingar sem berast um ótilhlýðilega háttsemi og/eða slæm samskipti starfsfólksinnan stofnunarinnar. Brugðist skal við þeim af yfirmönnum/forstjóra án tafar.


Mat og eftirfylgni: Árlega skal farið yfir hvort markmið um góð samskipti innan stofnunarinnar hafi náðst, sem og hvort gripið hafi verið til viðeigandi aðgerða í hvert sinn.


Vandamál vegna ofangreindra atriða eru skráð og í hvert skipti metið hvort eða hvaða aðgerða er þörf til að bregðast við. Mannauðsstjóri kannar þessi atriði árlega.

Samræming fjölskyldulífs og atvinnu

Markmið: Öllum sem starfa hjá Lyfjastofnun skal gert kleift, sem frekast er unnt, að samræma fjölskyldulíf sitt og atvinnu. Til að svo megi verða geta einstaklingar sem starfa hjá stofnuninni óskað eftir því að vinnutími verði aðlagaður að þörfum þeirra. Slíkar beiðnir eru metnar hverju sinni með tilliti til viðkomandi starfs og þarfa stofnunarinnar.


Aðgerðaáætlun: Í starfsmannahandbók er skráður sá sveigjanleiki sem starfsfólk nýtur í starfi og gildir jafnt fyrir öll kyn. Starfsfólk kemur óskum um sveigjanleika til næsta yfirmanns og er svarað eins fljótt og unnt er. Óskir um sveigjanleika geta t.d. falið í sér að vinna frá heimili í ákveðinn tíma, framkvæma vinnuskyldu í ákveðnum hlutföllum milli heimilis og skrifstofu, fara í tímabundið lægra vinnuhlutfall o.s.frv.


Mat og eftirfylgni: Mannauðsstjóri kannar árlega sveigjanleika með tilliti til kynja og hvort frekari aðgerða sé þörf.

Starfsþjálfun og endurmenntun

Markmið: Öll sem starfa hjá Lyfjastofnun í sambærilegum störfum skulu njóta jafnra möguleika til sí- og endurmenntunar. Þá skulu öll kyn einnig njóta jafnra möguleika til starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum, sbr. gæðaskjalið Starfsþjálfunar- og endurmenntunarstefna Lyfjastofnunar.


Aðgerðaráætlun: Í starfsmannasamtali sem haldið er árlega hefur allt starfsfólk tækifæri til að ræða við næsta yfirmann um starfsþjálfunarþörf og endurmenntun. Umsóknir um starfsþjálfun og endurmenntun skulu fara að því sem greint er frá í fyrrnefndu gæðaskjali.


Mat og eftirfylgni: Mannauðsstjóri skráir endurmenntun og þjálfun starfsfólks og leggur mat á þjálfunarþörf í samráði við yfirmenn.

Kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og kynbundið ofbeldi

Markmið: Kynbundin og kynferðisleg áreitni og kynbundið ofbeldi verður ekki liðið hjá Lyfjastofnun.


Með kynbundinni áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.


Með kynferðislegri áreitni er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Með kynbundnu ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.


Aðgerðaáætlun: Kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi getur starfsfólk tilkynnt til næsta yfirmanns, mannauðsstjóra, eða forstjóra. Slík mál fara í feril, sbr. áðurgreint gæðaskjal um Einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi.


Á hverju hausti er haldinn almennur starfsmannafundur þar sem öllu starfsfólki er tryggð fræðsla um þær verklagsreglur sem í gildi eru ef upp koma atvik sem varða kynferðislega eða kynbundna áreitni hjá Lyfjastofnun.


Mat og eftirfylgni: Árlega er skoðað hvort þörf er á öðrum aðgerðum eða endurskoðun á kvörtunarferli.

Þátttaka í vinnuhópum

Markmið: Vinnuhópar innan stofnunarinnar skulu skipaðir öllum kynjum en þó þannig að haft sé að leiðarljósi að nýta bestu sérfræðiþekkingu hverju sinni.


Aðgerðaáætlun: Þegar stofnaðir eru vinnuhópar sem eiga að sinna því að vinna/rýna tiltekin mál, skal ætíð haft hugfast að jafnvægi kynjanna sé sem best, þó þannig að haft sé að leiðarljósi það markmið að besta sérfræðiþekkingin sé nýtt hverju sinni.


Mat og eftirfylgni: Mannauðsstjóri óskar árlega eftir yfirliti frá sviðsstjórum um skipun vinnuhópa og fer yfir hvort jafnræðis hafi verið gætt.

Síðast uppfært: 23. ágúst 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat