Upplýsingar um undanþágulyf fyrir notendur

Ef lyf sem sjúklingur þarf á að halda er ekki fáanlegt t.d. vegna þess að það er í lyfjaskorti eða einfaldlega vegna þess að lyfið er ekki markaðssett hér á landi getur læknir ávísað undanþágulyfi á sjúkling.

Ef um lyfjaskort er að ræða þá getur sjúklingur nálgast upplýsingar um hvaða úrræði eru í boði á yfirlitslista Lyfjastofnunar um lyfjaskort. Í mikilvægum tilfellum eru sér fréttir um lyfjaskort birtar á vefsíðu stofnunarinnar.

  1. Umsóknir um undanþágulyf eru afgreiddar alla virka daga hjá Lyfjastofnun og er almenna reglan sú að allar undanþágulyfjaávísanir eru afgreiddar innan 24 klukkustunda. Ef umsókn er send inn eftir klukkan 14 á virkum dögum er ekki öruggt að afgreiðsla náist fyrir lok þess dags, en þá má gera ráð fyrir að hún verði afgreidd snemma næsta virka dag á eftir. Athugið að í einstaka tilfellum gæti þurft að skoða umsóknir sérstaklega og afgreiðsla þeirra því tekið lengri tíma. Starfsfólk Lyfjastofnunar getur ekki veitt almenningi upplýsingar um stöðu einstaka umsókna enda krefst slíkt miðlun persónugreinanlegra upplýsinga. Sjá persónuverndarstefnu stofnunarinnar.

Starfsfólki Lyfjastofnunar er óheimilt að veita upplýsingar um umsóknir einstaklinga með því að fletta upp persónugreinanlegum upplýsingum, s.s. nafni eða kennitölu. Starfsfólk Lyfjastofnunar getur aðeins veitt upplýsingar varðandi umsókn til þess læknis sem hefur sótt um eða samstarfsfólks hans. Enda er þar ekki um persónugreinanlegar upplýsingar að ræða. Ef rafræn undanþágulyfjaávísun er eldri en dags gömul og finnst ekki í apóteki geta verið fyrir því nokkrar ástæður. Í öllum neðangreindum tilfellum liggur svarið hjá lækninum sem ávísaði lyfinu og hann er sá eini sem getur brugðist við:

  1. Læknir hefur ekki enn sent umsóknina til Lyfjastofnunar.
  2. Undanþágubeiðninni hefur verið hafnað. Upplýsingar um höfnun eru sendar lækninum.
  3. Undanþágulyfjaávísunin hefur verið send í annað apótek en sjúklingur bjóst við. Algengast er að lyfjaávísunin birtist í lyfjagáttinni en læknir getur einnig valið að lyfjaávísunin fari í ákveðið apótek eftir samþykki Lyfjastofnunar. Lyfjastofnun sér ekki hvert lyfjaávísunin er send.
Síðast uppfært: 14. maí 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat