Ávana og fíkniefni

Inn- og útflutningur ávana- og fíkniefna er háður leyfum útgefnum af Lyfjastofnun.

Innflutningur

Innflutningur ávana- og fíkniefna er háður innflutningsleyfi útgefnu af Lyfjastofnun sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Fyrirtæki sem hafa leyfi til innflutnings lyfja geta sótt um innflutning á ávana- og fíkniefnum með skriflegri umsókn. Leyfið er gefið út í þríriti, eitt eintak (hvítt) er sent til útflytjandans til að hægt sé að fá útflutningsleyfi í útflutningslandi, eitt eintak (gult) er notað til að leysa ávana- og fíkniefnið úr tolli og síðasta eintakið (grænt) er sent til baka til Lyfjastofnunar eftir innflutning ásamt upplýsingum um magn innflutts efnis, innflutningsdagsetningu og ef flutt er minna inn en upphaflega var sótt um þarf að upplýsa um ástæðu þess.

Ársfjórðungslega sendir Lyfjastofnun skýrslu til INCB með upplýsingum um hversu mikið magn af ávana- og fíkniefnum hefur verið flutt til landsins byggt á staðfestum tölum um innflutning frá innflytjendum (grænu eintök innflutningsleyfanna).

Um áramót senda innflytjendur upplýsingar um lagerstöðu ávana- og fíkniefna um áramót til Lyfjastofnunar ásamt upplýsingum um innflutning, útflutning og fyrningar ávana- og fíkniefna frá árinu á undan. Með hliðsjón af þeim tölum sækir Lyfjastofnun um kvóta til INCB fyrir innflutning til Íslands árið eftir.

Útflutningur

Útflutningur ávana- og fíkniefna er háður útflutningsleyfi útgefnu af Lyfjastofnun. Fyrirtæki sem hafa leyfi til framleiðslu eða heildsöludreifingu lyfja geta sótt um leyfi til útflutnings á ávana- og fíkniefnum sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 233/2001 með skriflegri umsókn. Leyfið er gefið út þegar útflytjandinn hefur sent Lyfjastofnun innflutningsleyfi frá yfirvöldum í innflutningslandinu ásamt umsókn um útflutningsleyfi.

Umsóknir

Sótt er um leyfi fyrir hverri sendingu vegna innflutnings eða útflutnings á ávana- og fíkniefnum. Einungis þau fyrirtæki sem hafa leyfi til innflutnings lyfja geta sótt um leyfi til innflutnings eða útflutnings ávana- og fíkniefna. Til að fylla út umsókn, þarf að fara inná mínar síður hjá Lyfjastofnun og fylla út umsóknina þar. Það er á ábyrgð umsækjanda að upplýsingar í umsókn séu réttar. Með umsókn fyrir útflutningsleyfi þarf að fylgja innflutningsleyfi frá innflutningslandi.

Kostnaður við leyfi er samkvæmt gjaldskrá Lyfjastofnunar.
Athugið að inn- og útflutningsleyfi ávana- og fíkniefna verða afgreidd á mánudögum.

Síðast uppfært: 11. júní 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat