Hvað er undanþágulyf?
Langflest lyf sem seld eru í apótekum á Íslandi hafa markaðsleyfi frá Lyfjastofnun og þau fást hérlendis vegna þess að markaðsleyfishafi þeirra hefur ákveðið að markaðssetja þau á Íslandi að fengnu markaðsleyfi á Íslandi. Þess má geta að markaðsleyfi Lyfjastofnunar er grundvöllur þess að selja megi lyf á Íslandi.
Þegar upp kemur skortur á ákveðnu lyfi sem er á markaði, getur reynst nauðsynlegt að ávísa lyfi sem ekki hefur markaðsleyfi á Íslandi eða á hinn bóginn að markaðsleyfið er til staðar en lyfið er ekki markaðssett hér á landi. Þessi lyf kallast undanþágulyf í daglegu tali. Læknar ávísa undanþágulyfjum og þau er hægt að kaupa í apótekum (gegn undanþáguávísun) líkt og á við um önnur lyf.