Markmið vísindaráðgjafar er að greiða fyrir umræðu um þróun nýrra lyfja eða meðferða. Fyrirtæki, einstaklingar eða háskólar geta sótt um slíka ráðgjöf. Vísindaráðgjöf getur farið fram með hefðbundnum fundum, skriflega eða með fjarfundum. Hægt er að óska eftir vísindaráðgjöf á hvaða stigi sem er í þróun lyfs og óháð vali um skráningarferil til samþykktar. Ráðgjöfin er veitt með hliðsjón af vísindalegri þekkingu og byggir á gögnum frá umsækjanda.
Beiðni um vísindaráðgjöf
Umsækjendur geta óskað eftir vísindaráðgjöf til Lyfjastofnunar með því að fylla út umsóknareyðublað og senda það til stofnunarinnar, helst í gegnum Eudralink. Vísindaráðgjöf er veitt á þeim sviðum sem sérfræðingar Lyfjastofnunar hafa sérhæft sig í. Það er því háð mati hverju sinni hvort unnt er að veita þá ráðgjöf sem óskað er eftir.
Öllum beiðnum um vísindaráðgjöf er svarað en allt að tvær vikur geta liðið þangað til unnt er að bregðast við beiðnum.
Gjald fyrir vísindaráðgjöf
Gjald er tekið fyrir vísindaráðgjöf skv. gjaldskrá stofnunarinnar. Gjald er tekið fyrir fjölda tíma. Sjá nánari upplýsingar í gjaldskrá Lyfjastofnunar. Hluti verkefna er undanþeginn gjaldi en það er háð mati Lyfjastofnunar hverju sinni.