Kaup í netapóteki

Upplýsingar fyrir neytendur um reglurnar og hagnýtar upplýsingar í tengslum við kaup á lyfjum í netverslunum.

Upplýsingar fyrir neytendur

Hægt er að nálgast ávísunarskyld lyf og lausasölulyf hjá viðurkenndum netverslunum.

Öll apótek sem hafa heimild til að stunda netverslun með lyf verða að birta svokallað sameiginlegt kennimerki og skal það birtast á öllum hlutum (undirsíðum o.þ.h.) þar sem neytendur geta verslað lyf. Tilgangur með birtingu sameiginlega kennimerkisins er að gera neytendum kleift að ganga úr skugga um, að um sé að ræða apótek sem Lyfjastofnun hefur viðurkennt að megi bjóða lyf til kaups á internetinu.

Listi yfir apótek sem hafa heimild til netsölu.

Auðvelt er að sannreyna að treysta megi netverslun með lyf. Þú sem neytandi skalt hafa eftirfarandi í huga:

  • Hafðu augun opin og leitaðu að sameiginlega kennimerkinu á vefsíðu sem býður lyf til kaups á netinu.
  • Þegar smellt er á sameiginlega kennimerkið átt þú að flytjast yfir á vef Lyfjastofnunar þar sem finna má skrá yfir þau apótek sem hafa heimild til netverslunar með lyf.
  • Kannaðu hvort sú netverslun með lyf sem þú hefur í hyggju að eiga viðskipti við sé sannarlega að finna í skránni. Aðeins lögmætar netverslanir með lyf er að finna í skránni.
  • Ef netverslunina er að finna í skránni er óhætt að kaupa lyfin. Aldrei kaupa lyf á netinu af netverslun sem birtir ekki sameiginlega kennimerkið.

Frekari upplýsingar um sameiginlega kennimerkið og hvernig það virkar er að finna á vef Lyfjastofnunar Evrópu.

Hættur sem ber að varast og takmarkanir sem gilda

Lyfjakaup á netinu geta verið varasöm

Við kaup á lyfjum hjá löglegum netapótekum fær einstaklingur lyfin í pakkningum sem hafa verið samþykktar í því landi sem apótekið starfar. Vakin er athygli á því að upplýsingar utan á pakkningum og mikilvægar upplýsingar í fylgiseðlum, m.a. um lyfjainntöku og aukaverkanir, geta verið á tungumáli sem kaupandi hér á landi skilur ekki.

Á undanförnum árum hefur ólögleg netverslun með lyf færst mjög í vöxt um heim allan. Að framleiða og selja ólögleg lyf er arðbært en glæpsamlegt athæfi. Heilsu og jafnvel lífi neytenda er stefnt í hættu með því að selja þeim lyf sem uppfylla ekki innihaldslýsingar og framleiðslustaðla. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á lyfjum sem seld eru með ólögmætum hætti á netinu hafa sýnt að virkt innihaldsefni getur verið allt frá því að vera ekkert í það að vera allt annað en tilgreint er á umbúðum.

Mikilvægt er að neytendur hafi framangreint í huga og versli eingöngu við viðurkennda aðila á netinu.

Takmarkanir á innflutning lyfja í pósti

Umtalsverðar takmarkanir gilda um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota. Einstaklingum er t.d. óheimilt að flytja inn lyf með pósti frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Einnig eru takmarkanir á innflutningi lyfja með pósti frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Að hámarki má magnið vera sem svarar til 100 daga notkunar og einstaklingur skal geta framvísað vottorði frá lækni, lyfjaávísun eða annarri skriflegri yfirlýsingu ásamt fyrirmælum um notkun, sem færir fullnægjandi sönnur á að lyfjanna hafi verið aflað með lögmætum hætti og að lyfin séu honum nauðsynleg í því magni sem tilgreint er. Óheimilt er að flytja inn með pósti ávana- og fíkniefni og vefaukandi stera.

Sameiginlegt evrópskt kennimerki netverslana með lyf

Hvaða þýðingu hefur sameiginlegt evrópskt merki netverslana með lyf?

Í tengslum við aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa íslensk stjórnvöld innleitt í íslenskan rétt reglur um hið sk. sameiginlega kennimerki (e. Common Logo) fyrir netverslanir með lyf.

Tilgangur sameiginlega kennimerkisins er að aðstoða neytendur við að beina viðskiptum sínum til lögmætra vefverslana með lyf. Sameiginlega kennimerkinu er ætlað að fyrirbyggja að ólögleg og fölsuð lyf fari í dreifingu til almennings.

Sameiginlegt kennimerki lögmætra vefverslana með lyf

Leyfi til að nota merkið

Samkvæmt lyfjalögum er handhöfum lyfsöluleyfa heimilt að stunda hér á landi netverslun með lyf. Um póst- og netverslun með lyf gildir reglugerð nr. 560/2018. Lyfjastofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar og er jafnframt skylt að halda úti vefsíðu þar sem finna má upplýsingar um fjarsölu lyfja gegnum netið. Sjá nánari upplýsingar um merkið og leiðbeiningar um notkun þess.

Síðast uppfært: 23. október 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat