Jarðvegurinn plægður fyrir rafræna fylgiseðla

Í næstu viku standa Lyfjastofnun Evrópu (EMA), forstjórar lyfjastofnana
Evrópulanda og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir vinnustofu með
hagsmunaaðilum úr ýmsum áttum, í því skyni að móta stefnu og sameiginlegar
leiðir til að leggja grunn að rafrænum fylgiseðlum. 

Öllum lyfjum sem hafa markaðsleyfi evrópska efnahagssvæðinu fylgja
upplýsingar til sjúklinga annars vegar og heilbrigðisstarfsfólks hins vegar.
Þrátt fyrir að reynt hafi verið að gera þessar upplýsingar auðlesanlegar, er
þörf á að bæta um betur eins og fram kemur
í skýrslu Framkvæmdastjórnar ESB
um þessi mál, einkum hvað varðar
fylgiseðlana. Þar geta rafrænar lausnir gengt stóru hlutverki.

Lyfjaupplýsingar fyrir notendur er nú um stundir að finna sem prentaða
fylgiseðla í lyfjapakkningunni og yfirleitt líka á vefjum lyfjastofnananna – og
þá sem pdf-skrár. Nýir tæknimöguleikar gera að verkum að með rafrænni útgáfu
fylgiseðla er hægt að uppfæra upplýsingar með lítilli fyrirhöfn og lágum
kostnaði miðað við það sem nú gerist. Með þeim hætti ætti að vera tryggt að
sjúklingurinn hafi alltaf nýjustu upplýsingar um notkun og verkun lyfsins, sem ætti
að auka öryggi til muna. Að auki verður sjóndöprum gert auðveldara um vik að
lesa fylgiseðlana.

Til vinnustofunnar er boðið heilbrigðisstarfsmönnum og fræðimönnum, sem og fulltrúum
sjúklinga, góðgerðarstofnana, lyfjamarkaðarins og stjórnvalda. Reynt verður að
greina þarfir þessara mismunandi hópa, tækifæri til breytinga, og einnig
kortleggja hvaða vinna fer fram á þessu sviði í hverju landi og hvernig það
rímar við það sem gerist annars staðar í heiminum.

Afrakstur vinnustofunnar verður nýttur til að setja saman drög að grunnreglum
um rafræna fylgiseðla á evrópska efnahagssvæðinu sem mun liggja frammi í
samráðsgátt í sex mánuði frá og með janúar nk. Hægt verður að fylgjast
með vinnustofunni í beinni útsendingu
á vef EMA frá kl. 9-18 þann 28.
nóvember.  

Síðast uppfært: 22. nóvember 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat