Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur hafist handa við mat á umsókn um notkun á örvunarskammti af COVID-19 bóluefni Janssen sem skal gefinn fólki 18 ára og eldri, tveimur mánuðum eftir fyrsta skammtinn.
Gögn metin
Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn (CHMP) mun framkvæma flýtimat á gögnum sem hún hefur fengið frá markaðsleyfishafanum, Janssen. Gögnin innihalda niðurstöður rannsókna þar sem fleiri en 14.000 fullorðnir einstaklingar fengu ýmist seinni skammt af bólefni Janssen eða lyfleysu tveimur mánuðum eftir að hafa fengið fyrsta skammtinn.
Þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir mun CHMP meta hvort þörf er á uppfærslum á lyfjatextum bóluefnisins. Búist er við að niðurstöður matsins liggi fyrir á næstu vikum, nema ef þörf verður á viðbótarupplýsingum.
Framkvæmd bólusetningar
Ákvörðun um framkvæmd bólusetninga fer fram í hverju landi fyrir sig og er aðildarríkjum frjálst að gera áætlanir um að gefa viðbótar- eða örvunarskammta. Hér á landi er dreifing bóluefna og skipulag bólusetningar undir stjórn sóttvarnalæknis en framkvæmdin í höndum heilsugæslunnar og heilbrigðisstofnana um allt land.
Um bóluefnið
COVID-19 Vaccine Janssen er bóluefni til varnar COVID-19 hjá einstaklingum 18 ára og eldri, þar sem bóluefnaskammturinn er gefinn einu sinni. Bóluefnið inniheldur aðra veiru (adenóveiru) sem breytt hefur verið á þann veg að hún inniheldur genaupplýsingar til að framleiða prótein sem einkennir SARS-CoV-2 veiruna (sem veldur COVID-19).