Ný grein: Tilkynntar aukaverkanir lyfja á Íslandi á árunum 2013 til 2016. Samanburður við tilkynningar á Norðurlöndunum

Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins er að finna grein sem tveir starfsmenn Lyfjastofnunar, Sigríður Ólafsdóttir sviðsstjóri eftirlitssviðs og Hrefna Guðmundsdóttir læknir, skrifa ásamt Söru Skúlínu Jónsdóttur lækni á Landspítalanum. Fjallað er um fjölda og eðli aukaverkanatilkynninga á Íslandi í samanburði við það sem gerðist í nágrannalöndunum á árunum 2013 - 2016. Greinin varpar ljósi á athyglisverðan mun slíkra tilkynninga milli landa, og umfjöllunin vekur sömuleiðis athygli á mikilvægi þeirra, ekki síst vegna þess að við forrannsóknir lyfja er einungis hægt að meta aukaverkanir út frá takmörkuðum og stundum þröngt skilgreindum hópi fólks. Fæst lyf eru t.d. prófuð á börnum, ungmennum og öldruðum. Mikilvægt er því að fá viðbótarupplýsingar eftir að lyf er komið á markað.

Upplýsingum um tilkynningar aukaverkana á Íslandi er safnað í gagnagrunn hjá Lyfjastofnun. Þar má sjá að flestar aukaverkanatilkynningar á umræddu tímabili komu frá læknum, en tilkynningum fækkaði bæði frá læknum og almenningi. Sömuleiðis kom í ljós verulegur munur á tíðni alvarlegra aukaverkana sem tilkynntar voru á Íslandi miðað við það sem gerðist í nágrannalöndunum. Á Íslandi voru þær innan við 10% á þessum tíma, meðan hlutfallið á öðrum Norðurlöndum var á bilinu 38-64%.  Af þessu er dregin sú ályktun að Íslendingar standi afar höllum fæti miðað við aðrar Norðurlandaþjóðir þegar kemur að því að fylgjast með alvarlegum aukaverkunum lyfja.

Höfundar greinarinnar telja hugsanlegt að íslenskir heilbrigðisstarfsmenn séu síður meðvitaðir um mikilvægi þess að tilkynna aukaverkanir en kollegar þeirra erlendis, eða að skráning einfaldlega gleymist. Efla þurfi fræðslu til heilbrigðisstarfsmanna og almennings um mikilvægi tilkynninga. Enda muni ítarlegri upplýsingar á þessu sviði leiða af sér hnitmiðaðri lyfjanotkun og bætta meðferð sjúklinga. 

Hér má finna hlekk á greinina í Læknablaðinu.

Síðast uppfært: 6. júlí 2017
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat