Ný lyf á markað í janúar

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. janúar 2022

Ný lyf á markað 1. janúar 2022

Ný lyf fyrir menn

Bavencio, innrennsliþykkni, lausn. Hver ml af þykkni inniheldur 20 mg af avelúmabi og eitt hettuglas með 10 ml inniheldur 200 mg af avelúmabi. Bavencio er ætlað sem einlyfjameðferð til að meðhöndla fullorðna sjúklinga með bjálkakrabbamein með meinvörpum og sem fyrstavals viðhaldsmeðferð hjá fullorðnum sjúklingum með þvagfæra-þekjukrabbamein sem vaxið hefur út fyrir mörk líffæris eða með meinvörpum, þegar sjúkdómur hefur ekki versnað eftir meðferð með krabbameinslyfjum sem innihalda platínu. Auk þess er notkun lyfsins samhliða axitinibi ætlað sem fyrstavals meðferð hjá fullorðnum sjúklingum með langt gengið nýrnafrumukrabbamein. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf, sjúkrahúslyf og er lyfseðilskylt.

Calquence, hörð hylki. Hvert hart hylki inniheldur 100 mg af acalabrutinib. Lyfið er ætlað sem einlyfjameðferð eða ásamt obinutuzumabi í meðferð hjá fullorðnum sjúklingum með áður ómeðhöndlað langvinnt eitilfrumuhvítblæði (CLL). Calquence er einnig ætlað sem einlyfjameðferð hjá fullorðnum sjúklingum með langvinnt eitilfrumuhvítblæði (CLL) sem hafa fengið a.m.k. eina meðferð áður. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í blóðsjúkdómum og krabbameinslækningum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilskylt.

Cefepima Normon, stungulyfs-/innrennslisstofn og leysir, lausn. Lyfið fæst í tveim styrkleikum, 1 g og 2 g. Hvert hettuglas inniheldur 1 g eða 2 g af cefepimi (sem cefepim tvíhýdróklóríð einhýdrat). Lyfið er ætlað til meðferðar við ýmsum sýkingum af völdum sýkla sem eru næmir fyrir cefepimi, m.a. lungnabólgu og alvarlegum þvagfærasýkingum. Taka verður tillit til opinberra leiðbeininga um rétta notkun sýklalyfja. Lyfið er samheitalyf lyfsins Maxipime sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi og er lyfseðilskylt.

Midazolam Medical Valley, munnholslausn. Lyfið er fáanlegt í fjórum styrkleikum, 2,5 mg, 5 mg, 7,5 mg og 10 mg. Hver áfyllt munngjafasprauta (0.5 ml, 1 ml, 1,5 ml eða 2 ml) inniheldur 2,5 mg, 5 mg, 7,5 eða 10 mg af mídazólami. Lyfið er ætlað til meðferðar við langvarandi bráðum krampaflogum hjá ungbörnum, smábörnum, börnum og unglingum (frá 3 mánaða til <18 ára). Foreldrar/umönnunaraðilar mega eingöngu nota Midazolam Medical Valley handa sjúklingum sem hafa verið greindir með flogaveiki. Hjá ungbörnum á aldrinum 3-6 mánaða skal meðferð fara fram á sjúkrahúsi þar sem hægt er að hafa eftirlit og endurlífgunarbúnaður er aðgengilegur. Notkun 2,5 mg styrkleikans er bundið við notkun á sjúkrahúsum eða öðrum heilbrigðisstofnunum. Notkun hinna styrkleikanna þriggja (5 mg, 7,5 mg og 10 mg) er ekki háð þeim takmörkunum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Dormicum og er lyfseðilskylt.

Piperacillin/Tazobactam WH, innrennslistofn, lausn. Hvert hettuglas inniheldur piperacillín (sem natríumsalt) sem samsvarar 4 g og tazobactam (sem natríumsalt) sem samsvarar 0,5 g. Lyfið er ætlað til meðferðar við ýmsum sýkingum hjá fullorðnum og unglingum, m.a. alvarlegri lungnabólgu, flóknum þvagfærasýkingum, flóknum sýkingum í kviðarholi og flóknum sýkingum í húð og mjúkvefjum. Einnig er lyfið ætlað til meðferðar við sýkingum hjá börnum á aldrinum 2 til 12 ára, m.a. flóknum sýkingum í kviðarholi. Lyfið er samheitalyf lyfsins Tazocin og er lyfseðilsskylt.

Verquvo, filmuhúðaðar töflur. Lyfið er fáanlegt í þremur styrkleikjum, 2,5 mg, 5 mg og 10 mg og inniheldur hver tafla samsvarandi styrkleika af vericiguati. Lyfið er ætlað til meðferðar við langvarandi hjartabilun með einkennum hjá fullorðnum sjúklingum með minnkað útfallsbrot sem hafa náð stöðugleika eftir nýlega skerðingu á hjartastarfsemi sem krafðist meðferðar í bláæð. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og lyfseðilskylt.

Síðast uppfært: 20. janúar 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat