Ceftazidim Fresenius Kabi, stungulyf, lausn. Hvert hettuglas inniheldur 1000 mg af ceftazidimi. Lyfið er ætlað til meðferðar við ýmsum sýkingum hjá fullorðnum og börnum, þ.m.t. nýburum. Meðal sýkinga sem lyfið er notað við má nefna heilahimnubólgu, lungnabólgu, sýkingar í berkjum- og lungum tengdar slímseigjusjúkdómi, og þvagfærasýkingu. Lyfið er samheitalyf lyfsins Cefortam (Fortum) og er lyfseðilskylt.
Ceftazidim Fresenius Kabi, stungulyfs-/innrennslisstofn, lausn. Hvert hettuglas inniheldur 2000 mg af ceftazidimi. Lyfið er ætlað til meðferðar við ýmsum sýkingum hjá fullorðnum og börnum, þ.m.t. nýburum. Meðal sýkinga sem lyfið er notað við má nefna heilahimnubólgu, lungnabólgu, sýkingar í berkjum- og lungum tengdar slímseigjusjúkdóm,i og þvagfærasýkingu. Lyfið er samheitalyf lyfsins Cefortam (Fortum) og er lyfseðilskylt.
Fesoterodine Teva, forðatöflur. Lyfið er fáanlegt í tveimur styrkleikum, 4 mg og 8 mg. Hver forðatafla inniheldur 4 mg eða 8 mg fesóteródín fúmarat, sem samsvarar 3,1 mg eða 6,2 mg af fesóteródíni. Lyfið er ætlað til meðferðar hjá fullorðnum við einkennum (aukin tíðni þvagláta og/eða bráð þörf fyrir þvaglát og/eða bráðaþvagleki) sem fram geta komið hjá sjúklingum með ofvirka þvagblöðru. Lyfið er samheitalyf lyfsins TOVIAZ og er lyfseðilskylt.
Taptiqom sine, augndropar, lausn. Einn ml af lausn inniheldur 15 míkrógrömm af taflúprosti og 5 mg af tímólóli. Einn dropi (u.þ.b. 0,03 ml) inniheldur um það bil 0,45 míkrógrömm af taflúprosti og 0,15 mg af tímólóli. Lyfinu er ætlað að lækka augnþrýsting hjá þeim fullorðnu sjúklingum með gleiðhornsgláku eða háþrýsting í auga, sem sýna ekki fullnægjandi svörun við staðbundinni einlyfjameðferð með betablokkum, eða prostaglandínhliðstæðum. Lyfið er samsett lyf og er lyfseðilskylt.