Lyf fyrir menn
Cibinqo filmuhúðaðar töflur. Cibinqo er fáanlegt í þremur styrkleikum 50 mg, 100 mg og 200 mg. Hver tafla inniheldur samsvarandi magn af abrocitinibi. Lyfið er ætlað til meðferðar við í meðallagi alvarlegri til alvarlegri ofnæmishúðbólgu hjá fullorðnum sem hentar altæk meðferð. Cibinqo er lyfseðilsskylt og er ávísun þess bundin við sérfræðinga í ofnæmis- og lungnasjúkdómum.
Duloxetine Medical Valley magasýruþolin hylki. Lyfið er fáanlegt í tveimur styrkleikum; 30 mg og 60 mg. Hvert hylki inniheldur 30 mg eða 60 mg af duloxetíni (sem hýdróklóríð). Duloxetin er ætlað fullorðnum til meðferðar á alvarlegu þunglyndi, útlægum taugaverkjum vegna sykursýki og almennri kvíðaröskun. Duloxetine Medical Valley er samheitalyf Cymbalta og er lyfseðilsskylt.
Vagidonna leggangatöflur. Hver leggangatafla inniheldur estradíólhemihýdrat sem samsvarar 10 míkrógrömmum af estradíóli. Vagidonna er ætlað konum eftir tíðarhvörf til meðferðar við slímhúðarrýrnun í leggöngum vegna skorts á estrógeni. Vagidonna er samheitalyf Vagifem og er lausasölulyf.
Lyf fyrir dýr
Butasal vet stungulyf, lausn handa hestum, nautgripum, hundum og köttum. Hver ml af stungulyfi inniheldur 100,0 mg butafosfan og 0,05 mg cýanókóbalamín (B12 vítamín). Butasal vet er ætlað sem stuðningsmeðferð við efnaskipta- eða frjósemiskvillum, þegar þörf er á viðbótarskammti af fosfór og cýanókóbalamíni. Í þeim tilvikum þegar vart verður við efnaskiptakvilla, stífkrapma og lömunarsnert (mjólkurhita) kringum burð skal gefa lyfið ásamt magnesíum og kalki. Lyfið er lyfseðilsskylt og má eingöngu nota handa dýrum þegar dýralæknir gefur það sjálfur.