Pólskættaðir á Íslandi sækja lyf og læknisþjónustu gjarnan til gamla heimalandsins

Morgunverðarfundur Lyfjastofnunar um lestur fylgiseðla var haldinn í síðustu viku. Fjallað var um
hvernig lyfjaupplýsingar á fylgiseðlum skila sér til notenda, og hvernig best
er að koma slíkum upplýsingum áleiðis, á pappír eða rafrænt, með prenti eða pixlum.

Rafrænt m.a. fyrir minnihlutahópa
Erindi Sivjar Friðleifsdóttur hjá
velferðarráðuneytinu bar yfirskriftina Rafrænir fylgiseðlar þjóna hag neytenda,
og hún bætti við: þeir koma, bara spurning klukkan hvað. Kristín Lára
Helgadóttir hjá velferðarráðuneytinu einnig sagði frá hugmyndum um verkefni sem
snýr að innleiðingu rafrænna fylgiseðla en byrjað er að vinna að því í ráðuneytinu.  Hún sagði einnig af Evrópuverkefni sem miðar
að því að kortleggja hvernig þeir sem ekki hafa þjóðtungu viðkomandi lands að
móðurmáli geta aflað sér upplýsinga um lyf. Viðar Guðjohnsen talaði um reynslu
sína af slíkum málum, hafandi starfað sem lyfjafræðingur í nokkrum löndum.

Pólskættaðir leita til Póllands
Þetta sama var enn frekar rætt í
samtali við Grazynu Mariu Okuniewsku hjúkrunarfræðing, sem sagði frá því sem
hún þekkir um þessi mál hjá pólska
samfélaginu á Íslandi. Margt kom á óvart í máli hennar. Sérstaklega þó í hve
mikilum mæli pólskættaðir á Íslandi virðast leita til gamla heimalandsins til
að kaupa lyf og sækja læknisþjónustu.

Könnun um lestur fylgiseðla
Síðast en ekki síst skal nefna
könnun um lestur fylgiseðla en niðurstöður hennar voru kynntar á fundinum. Könnunin
var sett saman af starfsmönnum upplýsingadeildar Lyfjastofnunar, og hugsuð sem
forprófun og undanfari viðameiri könnunar síðar. Hún er ekki sambærileg
könnunum sem gerðar eru með slembiúrtaki því henni var deilt á Facebook og eingöngu
þeir sem fyrirfram höfðu áhuga tóku þátt í henni.  Niðurstöður gefa þó vísbendingar um að
verulegur meirihluti, eða tæp 70% lesi fylgiseðil oft eða alltaf. Og þótt tekið
sé jákvætt í hugmyndir um rafræna útgáfu fylgiseðla, sem 77% sögðust kunna vel að meta eða mjög vel, þá voru jafnvel enn fleiri sem heldur, eða auk hinna
rafrænu, vildu hafa prentaðan fylgiseðil í pakkningu; 79% leist vel á það
fyrirkomulag.    

Síðast uppfært: 12. nóvember 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat