Sjaldgæf en hugsanleg hætta á lifrarskemmdum við meðferð á vöðvaæxli í legi með lyfinu Esmya

Sérfræðinefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) hefur hafið skoðun á lyfinu Esmya. Esmya er ætlað til meðferðar á meðalsvæsnum til svæsnum einkennum vöðvaæxlis í legi hjá fulltíða konum á barneignaraldri. Tilefni skoðunarinnar eru aukaverkanatilkynningar um alvarlegar lifrarskemmdir, þ.m.t. lifrarbilun sem kallar á lifrarígræðslu.

Að svo komnu máli mælir PRAC með því að konur sem nota lyfið við vöðvaæxli í legi fari reglulega í rannsókn á lifrarstarfsemi.

Allar konur sem nota Esmya eiga að fara a.m.k. mánaðarlega í rannsókn á lifrarstarfsemi. Ef niðurstöður lifrarprófsins eru óeðlilegar skal læknir hætta lyfjameðferð og fylgjast náið með sjúklingnum. Endurtaka skal rannsóknir á lifrarstarfsemi 2-4 vikum eftir að meðferð er hætt.

PRAC mælir einnig með því að Esmya sé ekki gefið nýjum sjúklingum meðan á skoðuninni stendur. Sjúklingar sem hafa lokið meðferðartímabili skulu ekki heldur hefja lyfjameðferð á ný.

Upplýsingar fyrir sjúklinga

Sjúklingum, sem eru í meðferð með Esmya og finna fyrir einhverju eftirtalinna einkenna, er ráðlagt að leita strax læknishjálpar vegna þess að einkennin geta hugsanlega verið merki um lifrarskemmdir:

  • Ógleði
  • Uppköst
  • Verkir í efri hluta kviðarhols
  • Lystarleysi
  • Þreyta
  • Gulleit augnhvíta
  • Gulleit húð

Ráðleggingarnar hér að framan eru tímabundnar ráðstafanir á meðan beðið er eftir niðurstöðu úr yfirstandandi skoðun PRAC á lyfinu. Heilbrigðisstarfsmenn sem ávísa Esmya munu fá bréf með frekari upplýsingum.

Slóð að frétt EMA sem inniheldur m.a. upplýsingar fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Síðast uppfært: 9. febrúar 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat