Sýklalyfið Staklox innkallað hjá einstaklingum í varúðarskyni

Þeir sem eru í sýklalyfjameðferð í dag með Staklox eru beðnir að skila lyfinu í næsta apótek sem fyrst. Annað lyf verður afhent í staðinn einstaklingum að kostnaðarlausu. Mikilvægt er að halda lyfjameðferð áfram samkvæmt leiðbeiningum. Þeir sem eiga afgangs Staklox birgðir eru einnig beðnir um að skila þeim í apótek.

Einstaklingar sem eru í sýklalyfjameðferð með Staklox eru beðnir að skila lyfinu í næsta apótek eins fljótt og auðið er. Þeir munu fá sýklalyfið Dicloxacillin Bluefish afhent í staðinn og þurfa ekki að greiða fyrir það. Um er að ræða sama lyf en frá öðrum framleiðanda.

Mikilvægt er að þeir sem eru á sýklalyfjameðferð ljúki henni samkvæmt leiðbeiningum, til að vinna bug á sýkingunni sem um ræðir.

Frekari dreifing á Staklox stöðvuð

Öll apótek í landinu eru upplýst um málið og hafa fengið leiðbeiningar frá markaðsleyfishafa Staklox og Lyfjastofnun um hvernig standa eigi að skiptum til einstaklinga. Á meðan á rannsókn málsins stendur er tryggt að Staklox sé ekki dreift til apóteka, heilbrigðisstofnana og einstaklinga. Önnur lyf sem innihalda dicloxacillin og eru á markaði á Íslandi eru ekki framleidd af sama fyrirtæki og því nær innköllunin ekki til þeirra.

Ráð til einstaklinga:

  • Ef þú ert núna í Staklox lyfjameðferð, þá skaltu fara með lyfið í apótek. Þú færð í staðinn lyfið Dicloxacillin Bluefish sem er sama lyf og Staklox en frá öðrum framleiðanda. Þú munt fá nægilegt magn til þess að klára sýklalyfjameðferðina samkvæmt leiðbeiningum læknis og þarft ekki að greiða aukalega fyrir það. Þú þarft ekki að hafa samband við lækninn til þess að fá nýja sýklalyfjaávísun til að klára núverandi meðferð.
  • Mögulegt er að búið sé að setja lyfið í aðrar umbúðir í apótekinu til þess að koma í veg fyrir að birgðir lyfsins klárist. Ef svo er, þá færð þú fylgiseðil lyfsins útprentaðan með afhentri pakkningu. Fylgiseðilinn má einnig nálgast í sérlyfjaskrá.
  • Ef Dicloxacillin Bluefish er ekki fáanlegt í apótekinu, þá er mögulegt að þú þurfir að hafa samband við lækni til að fá nýja sýklalyfjaávísun. Ýmis önnur sýklalyf eru fáanleg.
  • Ef þú hefur lokið Staklox meðferð og hefur engin einkenni um sýkingu þarftu ekki að gera neitt. Ef þú hefur fengið einkenni sýkingar, t.d. blöðrubólgu, þá skaltu hafa samband við lækni.
  • Lyfjastofnun hefur átt í samstarfi við veitendur heilbrigðisþjónustu í landinu og getur miðlað eftirfarandi: Þeim sem ekki geta fengið Dicloxacillin Bluefish í apóteki dagana 10.-15. febrúar 2023 er ráðlagt að hringja í síma 1700 eða 513-1700 eða hafa samband við netspjall Heilsuveru svo að hægt sé að meta framhald meðferðar, eftir þörfum í samráði við heilbrigðisstarfsmann.

Staklox var stöðvað í sölu á Íslandi 7. febrúar sl. í kjölfar þess að dönsku lyfjastofnuninni bárust nýlega upplýsingar um að nokkrir einstaklingar þar í landi sem greinst höfðu sýktir af fjölónæmu bakteríunni Enterobacter hormaechei, ættu það sameiginlegt að hafa fengið sýklalyfið Dicillin 500 mg frá lyfjafyrirtækinu Sandoz. Rannsókn leiddi í ljós að ein framleiðslulota af Dicillin innihélt þessa bakteríu, þeirri lotu var aðeins dreift í Danmörku. Allar lotur lyfsins hafa verið innkallaðar hjá einstaklingum í Danmörku. Rannsókn er í gangi og ekki hefur verið útilokað að mengun gæti átt við aðrar lotur af lyfinu.

Greindist fyrst í Danmörku

Ástæða þess að Staklox er nú innkallað hjá einstaklingum er að vaknað hefur grunur um sýkingu hjá einum einstaklingi á Íslandi, verið er að kanna möguleg tengsl.

Lyfjastofnun heldur rannsókn á málinu áfram og mun miðla frekari upplýsingum um þessi mál eftir því sem þörf krefur.

Síðast uppfært: 15. febrúar 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat